Skilti um Reykjadal afhjúpað

skrifað 25. jún 2014
Aldís, Gurrý og Rannveig voru í skiltanefndinni ásamt Önnu Björgu sem vantar á myndina.  Á myndinni er einnig Gunnstienn bæjarstjóri Ölfuss. Aldís, Gurrý og Rannveig voru í skiltanefndinni ásamt Önnu Björgu sem vantar á myndina. Á myndinni er einnig Gunnstienn bæjarstjóri Ölfuss.

Upplýsingaskilti um náttúru og öryggismál í Reykjadal sem sett var upp við Rjúpnabrekkur var afhjúpað þann 23. júní sl.
Annað skilti verður síðan sett upp við Brúnkollubletti á Ölkelduhálsi. Þetta eru skilti með merktri gönguleið og upplýsingum um jarðfræði, náttúrufar og öryggismál á svæðinu. Einnig er þar að finna tilmæli til gesta að ganga vel um dalinn og setja vernd þessa viðkvæma svæðis ávallt í fyrsta sæti.

Skiltið er unnið af Landvernd í samstarfi við Náttúrufræðistofnun Íslands, Ferðafélag Íslands, Slysavarnarfélagið Landsbjörgu, Safe Travel, Hveragerðisbæ, Sveitarfélagið Ölfus, Ferðafélag Íslands, Eldhesta og Landbúnaðarháskóla Íslands að Reykjum í Ölfusi.

Jafnframt hefur verið unnið að lagfæringum á stígum í Reykjadal sumrin 2012 og 2013 og sett upp hestagerði við Klambragil á vegum Sveitarfélagsins Ölfuss, Hveragerðisbæjar, Landbúnaðarháskóla Íslands á Reykjum og Eldhesta. Í sumar verður haldið áfram við lagfæringar á stígum og aðstöðunni við lækinn.

Sá fjöldi ferðamanna sem sækir dalinn heim hefur aukist gífurlega síðustu ár. Líklega eru vel yfir 20 þúsund manns sem fara þar um árlega, ýmist gangandi, hlaupandi, ríðandi eða hjólandi enda dalurinn vinsæll og í stuttri fjarlægð frá þéttbýlinu. Dalurinn þolir ekki þessa miklu umferð nema að áfram verði unnið kröftuglega að endurbótum á stígakerfinu og afmörkuð hættusvæði við heita læki og hveri. Bakkarnir við heitalækinn eru orðnir nær gróðurlausir vegna ágangs að baðstöðum. Þar þarf að koma fyrir pöllum sem hægt er að geyma fötin á og einnig til að stýra hvar er farið að læknum. Með fræðslu um gróðurfar og þá hættu sem fylgir jarðhita er vonast til að þeir sem um dalinn fara virði leiðbeiningar um gönguleiðir og njóti þess að ferðast slysalaust um dalinn og án þess að valda svæðinu skaða.

Gönguleiðin upp Rjúpnabrekkur hefur verið stórbætt með nýjum göngustíg. Skiltið er hið glæsilegasta og gerir góða grein fyrir svæðinu.