Listamannabærinn Hveragerði

skrifað 27. jún 2012
Heiðdís Gunnarsdóttir við skiltið um móður sína Valdísi Halldórsdóttur. Heiðdís Gunnarsdóttir við skiltið um móður sína Valdísi Halldórsdóttur.

Sýningin Listamannabærinn Hveragerði - fyrstu árin var opnuð í Verslunarmiðstöðinni Sunnumörk þann 22. júní 2012. Það er nýstofnað Listvinafélag Hveragerðis sem á heiðurinn af sýningunni en þau nutu liðsinnis Guðrúnar Tryggvadóttur sem hannaði og setti upp sýninguna.

Á sýningunni er leitast er við að draga upp mynd af tilurð skáldanýlendunnar í Hveragerði upp úr 1940 þar sem sex einstaklingar voru kannski mest áberandi. Nútíminn kallast skemmtilega á við fortíðina en nokkrir valinkunnir Hvergerðingar fjalla um skáldin á sýningunni og velja brot úr verkum þeirra.

Reynt er að varpa ljósi á hvað varð til þess að svo mörg skáld fluttu til Hveragerðis upp úr 1940 og hvernig fjölskyldur þeirra bjuggu á þessum tíma. Skáldin og verk þeirra eru síðan tekin sérstaklega fyrir og lífsverki þeirra gerð skil. Skáldin sem fluttu til Hveragerðis hernámsárið 1940 og næstu árin á eftir eygðu von um betri og hagkvæmari kjör og aðbúnað en þau lifðu við á kreppuárunum fyrir stríð. Fréttir bárust um ódýra hitun í húsum og að matseld færi jafnvel fram í hverunum sjálfum. Fyrstir fluttu Jóhannes úr Kötlum með fjölskyldu sína í október 1940 og Kristmann Guðmundsson í febrúar 1941. Báðar fjölskyldurnar höfðu misst húsnæði sitt í Reykjavík. Önnur skáld sem tekin eru sérstaklega fyrir á sýningunni eru Gunnar Benediktsson og kona hans Valdís Halldórsdóttir, séra Helgi Sveinsson og Kristján frá Djúpalæk.

Gert er ráð fyrir að sýningin verði næsta árið í Verslunarmiðstöðinni en eftir það fari hún jafnvel á flakk um landið.

Áhugasamir eru hvattir til að kynna sér starf Listvinafélagsins á heimasíðu félagsins.

Nútíminn kallast skemmtilega á við gamla daga á sýningunni.Guðrún Tryggvadóttir, hönnuður, ásamt Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra. Hrefna Kristmannsdóttir við skiltið um föður hennar. Svanur Jóhannesson við skiltið um föður hans Jóhannes úr Kötlum. Lífi, starfi og listiðkun skáldanna eru gerð góð skil á sýningunni.