Rekstur í góðu jafnvægi

skrifað 09. jan 2014
Sumar á BreiðumörkSumar á Breiðumörk

Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2014 er unnin með það að markmiði að íbúum Hveragerðisbæjar verði tryggð besta mögulega þjónusta og að reynt verði eftir fremsta megni að halda álögum í samræmi við það sem gerist í samanburðarsveitarfélögum.


Rekstur í góðu jafnvægi

Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2014 er unnin með það að markmiði að íbúum Hveragerðisbæjar verði tryggð besta mögulega þjónusta og að reynt verði eftir fremsta megni að halda álögum í samræmi við það sem gerist í samanburðarsveitarfélögum.

Má vegna þessa m.a. nefna að gjaldskrár vegna vistunar barna hækka ekki á árinu og nú sem fyrr fá elstu börn á leikskólum 4 tíma gjaldfrjálsa. Þar sem gjaldskrár hækka er víðast miðað við verðlagsþróun. Aftur á móti er bæjarstjórn nauðbeygð til að hækka gjöld fyrir sorphirðu og sorpurðun meira en sem nemur verðlagsþróun enda hefur kostnaður við málaflokkinn hækkað mjög frá því að urðunarstaðnum á Kirkjuferjuhjáleigu var lokað. Þrátt fyrir þessa hækkun munu þessi gjöld verða mun lægri en víðast hvar annars staðar.

Framkvæmdir og fjárfestingar

Lögð verður rík áhersla á viðhald eigna. Ráðist verður í endurbætur á Heimilinu Birkimörk og umtalsvert viðhald á leikskólanum Undralandi. Íþróttahúsið við Skólamörk fær andlitslyftingu og það fær einnig húsnæði Grunnskólans. Viðhaldi sundlaugarhússins verður einnig sinnt með auknum hætti svo fátt eitt sé talið. Á árinu 2014 er einnig gert ráð fyrir kaupum á nýju húsnæði fyrir frístundaskóla. Á árinu 2014 munu Brattahlíð og Þverhlíð verða lagðar bundnu slitlagi. Með því átaki fer að sjá fyrir endann á því verkefni að allar götur bæjarins verði lagðar bundnu slitlagi. Gert er ráð fyrir úrbótum á göngustígakerfi bæjarins og horft sérstaklega til Drullusunds og göngustíga vestarlega í bænum.

Skuldir nema 129,7% af tekjum

Á árunum 2010 til 2014 eða á 5 ára tímabili hefur verið fjárfest í bæjarfélaginu fyrir 662 mkr. Ber þar hæst byggingu Hamarshallarinnar sem er 5.000 m2 fjölnota íþróttahús. Á sama tíma hafa ný langtímalán eingöngu verið tekin til að standa straum af þessum sömu fjárfestingum eða 669 mkr. Á tímabilinu hafa verið greidd niður langtímalán sem nemur 845 mkr. Í lok árs 2014 munu langtímaskuldir samstæðu nema um 138,2% af árstekjum bæjarfélagsins. Heimilt er að draga frá skuldum skuldbindingu vegna greiðslu lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar. Sé það gert er skuldahlutfallið 129,7%.

Afgangur af rekstri samstæðu

Áætlaðar heildartekjur Hveragerðisbæjar (aðalsjóðs, A- og B- hluta) árið 2014 nema alls kr. 1.839 mkr. Rekstrargjöld og reiknaðar afskriftir samstæðu nema um 1.635 mkr. Niðurstaða samstæðu án fjármagnsliða er því jákvæð um 204 milljónir sem er 11,08% af tekjum. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 178 mkr en gert er ráð fyrir 3,9% verðbólgu. Rekstrarniðurstaða samstæðu er því jákvæð um 26 mkr. Samanlögð rekstrarniðurstaða áranna 2012, 2013 og 2014 verður því jákvæð um 72,6 mkr sem er í fullu samræmi við ákvæði nýrra sveitarstjórnarlaga.

Fjárhagsáætlun ársins 2014 var unnin af öllum bæjarfulltrúum sameiginlega og var samstarfið afar ánægjulegt. Fyrir það ber að þakka sem og framúrskarandi vinnu starfsmanna og forstöðumanna við gerð fjárhagsáætlunarinnar.

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri