Um fjármál og fyrirhugaða rekstrarúttekt

skrifað 25. okt 2012
Hveragerði 2012Hveragerði 2012

Tillaga um að gerð verði rekstrarleg úttekt á starfsemi Hveragerðisbæjar var einróma samþykkt af bæjarstjórn þann 18. október s.l.

Í bókun sem gerð var á fundinum kemur fram að samþykkt var að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við fyrirtækið HLH ehf um gerð úttektar á öllum rekstri Hveragerðisbæjar með það að markmiði að koma fram með tillögur að hagræðingu þannig að reksturinn skili meiri framlegð en nú er.

Ennfremur segir í bókuninni: "Bæjarstjórn leggur áherslu á að unnið verði hratt að úttektinni þannig að vinnan nýtist sem mest við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2013.

Það er einlægur vilji allra bæjarfulltrúa að þeir fjármunir sem bæjarbúar leggja í sameiginlega sjóði nýtist sem allra best með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi, úttekt sem þessi getur án vafa nýst vel í þeirri viðleitni."

Það er Haraldur Líndal Haraldsson, rekstrarráðgjafi og fyrrverandi bæjarstjóri sem hefur veg og vanda af úttektinni en hann hefur að undanförnu unnið svipaðar úttektir fyrir þó nokkur bæjarfélög.

Í samræmi við sveitarstjórnarlög

Á sama fundi bæjarstjórnar var einnig lagt fram bréf frá Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga (EFS) þar sem fram kemur að nefndinni hafi borist áætlun frá Hveragerðisbæ þar sem kynnt er fyrirætlan sveitarfélagsins um að ná viðmiðum sveitarstjórnarlaga í lok rekstrarársins 2012. Í umræddu bréfi frá EFS kemur fram að nefndin óskar ekki eftir frekari uplýsingum frá sveitarfélaginu. Er það fagnaðarefni að sjá að áætlanir bæjarstjórnar til framtíðar litið uppfylla kröfur nefndarinnar.

Fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2013 er nú komin í fullan gang og unnið verður hratt á næstu vikum enda stefnt að fyrri umræðu um áætlunina þann 29. nóvember nk.

Aldís Hafsteinsdóttir Bæjarstjóri