Regnbogafáni dreginn að húni

skrifað 17. maí 2013
Regnbogafáninn blaktir við aðalgötuna.Regnbogafáninn blaktir við aðalgötuna.

Alþjóðlegur baráttudagur gegn homo-, bi- og transfóbíu (fælni gagnvart samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transfólki) er haldinn 17. maí ár hvert, en þann dag árið 1990 var samkynhneigð tekin út af sjúkdómalista Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar.

Hveragerðisbær fagnar fjölbreytni mannlífsins og vill vekja athygli á rétti allra til fyllstu mannréttinda. Því drögum við regnbogafánann að húni bæði við aðalgötuna og við bæjarskrifstofuna í dag.

Í ár fagna Samtökin 78 35 ára afmæli en þau voru stofnuð 1978. Eftirfarandi er úr dreifibréfi frá samtökunum sem sent var í tilefni dagsins:

"Hómó-, bi- og transfóbía (e. homophobia, biphobia and transphobia) er lýst sem neikvæðum viðhorfum, tilfinningum og/eða neikvæðri hegðun gagnvart hinsegin fólki (t.d. gagnvart samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transfólki). Það getur lýst sér í andúð, fyrirlitningu, lítilsvirðingu, fordómum, fælni eða jafnvel hatri gagnvart hinsegin fólki og er oftast byggt á hræðslu og fáfræði varðandi málefni og líf hinsegin fólks.

Hómófóbía og transfóbía er enn í dag vandamál bæði hérlendis og erlendis og hefur þessi hræðsla lengi leitt til mismununar, sjúkdómsvæðingar, kúgunar og ofbeldis gagnvart hinsegin fólki í gegnum aldanna rás. Sjálfsvígstíðni hinsegin fólks er hærri en meðal annarra samkvæmt mörgum rannsóknum og bendum við í því samhengi á rannsókn sem var gerð hérlendis á sjálfsvígstíðni unglinga þar sem kom í ljós aukin hætta á sjálfsvígum meðal samkynhneigðra unglinga."

Hveragerðisbær sendir samtökunum og öllum samkynhneigðum, tvíkynhneigðum og transfólki hamingjusóskir í tilefni dagsins.

Regnbogafáninn blaktir við bæjarskrifstofuna.