Ný söguskilti afhjúpuð í Hveragerði

skrifað 26. ágú 2016
SkiltiSkilti

Í sumar voru vígð tvö ný söguskilti í miðbæ Hveragerðis. Við Egilsstaði og Þinghúsið. Eru söguskiltin í bænum þar með orðin ellefu. Öll gera þau góða grein fyrir þeirri ríku og merku sögu sem bæjarfélagið býr yfir.


Fjölda söguskilta má nú finna víðsvegar um Hveragerði og gera þau góða grein fyrir sögu og menningu byggðarlagsins auk þess að fjalla um atvinnuhætti og náttúru staðarins.

Á Blómstrandi dögum var nýtt söguskilti afhjúpað og nú við Egilsstaði, gamla barnaskólann við Skólamörk. Á skiltinu er sögu hússins gerð skil og einnig því hverjir voru forvígismenn að byggingu þess.

Það var Pjetur Hafstein Lárusson sem hafði veg og vanda af gerð skiltisins en hann sá um upplýsingaöflun, myndaleit og textagerð.

Fyrr í sumar var annað skilti afhjúpað við Þinghúsið, eða Skyrgerðina. Það skilti gerir merkri sögu þinghússins skil en húsið hefur hýst bæði þinghús sveitarfélagsins, skóla, skyrgerð, hótel, bíó, veitingahús og fleira.

Um gerð þess skiltis sá Njörður Sigurðsson.

Kunnum við Pjetri og Nirði bestu þakkir fyrir þeirra framlag við að viðhalda og vernda sögu Hveragerðibæjar um leið og allir eru hvattir til þess að skoða skiltin.

Aldís Hafsteinsdóttir
bæjarstjóri

Barnabörn Eiríks frá Bóli þær, María, Ólafía og Halla afhjúpuðu skiltið við Þinghúsið.  Hér eru þær ásamt Nirði Sigurðssyni og Eyþóri H. Ólafssyni, forseta bæjarstjórnar. Kristín Jóhannesdóttir og Svanur Jóhannesson afhjúpuðu skiltið en þau eru líklega einu Hvergerðingarnir sem enn búa í bæjarfélaginu sem gengu í barnaskóla í húsinu. 
Pjetur Hafstein Lárusson við skiltið um Egilsstaði