Niðurstaða í máli fyrir Hæstarétti

skrifað 15. apr 2016
FriðarstaðirFriðarstaðir

Niðurstaða Hæstaréttar er að hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Aðaláfrýjandi, Diðrik Jóhann Sæmundsson, greiði gagnáfrýjanda, Hveragerðisbæ, 850.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur féll í Hæstarétti þann 14. apríl í máli Diðriks Jóhanns Sæmundssonar gegn Hveragerðisbæ nr. 549/2015. Áður hafði Hveragerðisbær verið sýknaður af öllum kröfum fyrir Héraðsdómi Suðurlands.

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður. Aðaláfrýjandi, Diðrik Jóhann Sæmundsson, greiði gagnáfrýjanda, Hveragerðisbæ, 850.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Eftirfarandi er af heimasíðu Hæstaréttar: Í málinu krafðist D bóta úr hendi H, annars vegar þar sem gildistaka deiliskipulags fyrir Friðarstaði í Hveragerði, þar sem hann var ábúandi, hefði leitt til rýrnunar á verðmæti jarðarinnar og verulegrar skerðingar á nýtingarmöguleikum hennar og hins vegar vegna þess að synjun H um að veita sér leyfi til að breyta gróðurhúsi á jörðinni í hesthús hefði valdið sér fjárhagslegu tjóni. Fyrir lá að umrætt deiliskipulag var samþykkt af bæjarstjórn H árið 2002, en auglýsing um samþykkt og gildistöku skipulagsins var fyrst birt í B-deild Stjórnartíðinda árið 2009. Með vísan til ákvæða laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda, sem voru í gildi við samþykkt deiliskipulagsins, var talið að fyrri bótakrafan hefði verið fallin úr gildi fyrir fyrningu þegar málið var höfðað árið 2014. Þá var tekið fram að krafan væri einnig fyrnd þótt upphaf fyrningarfrests yrði miðað við birtingu auglýsingarinnar í Stjórnartíðindum, sbr. 1. mgr. 9. gr. og 1. og 2. mgr. 15. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sem þá höfðu öðlast gildi. Að því er varðaði síðari bótakröfu D var það niðurstaða dómkvaddra yfirmatsmanna að meiri kostnaður yrði því samfara að breyta gróðurhúsinu í hesthús en að reisa slíkt hús frá grunni. Með vísan til þess hefði D ekki fært sönnur á að hann hefði beðið fjártjón vegna stjórnvaldsákvörðunar H. Samkvæmt framansögðu var H sýknaður af báðum kröfum D.

Dómur Hæstaréttar í heild sinni.