Niðurskurði í löggæslu mótmælt

skrifað 01. ágú 2013

Bæjarráð Hveragerðisbæjar krefst þess að nú þegar verði gripið til aðgerða og fjárveitingar til Lögregluembættisins í Árnessýslu verði auknar svo koma megi í veg fyrir fækkun starfsmanna og þá skerðingu á þjónustu sem af slíku hlýst.


Á fundi bæjarráðs þann 1. ágúst 2013 var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:

Bæjarráð Hveragerðisbæjar krefst þess að nú þegar verði gripið til aðgerða og fjárveitingar til Lögregluembættisins í Árnessýslu verði auknar svo koma megi í veg fyrir fækkun starfsmanna og þá skerðingu á þjónustu sem af slíku hlýst.

Ef fram fer sem horfir þá verður einn bíll á vakt hverju sinni í Árnessýslu allri. Það er ljóst að með því verður ekki mögulegt að tryggja lágmarksþjónustu.

Rétt er að leggja áherslu á gríðarlegt umfang löggæslusvæðisins en í sýslunni búa um 15.000 íbúar og að auki sækir sýsluna heim mikill fjöldi ferðamanna á ári hverju.

Jafnframt er rétt að geta þess að að jafnaði eru um 10.000 manns í sumarbústöðum á svæðinu yfir sumartímann og getur sá fjöldi hæglega farið í 25.000 manns um helgar.
Hvergerðingar hafa ítrekað ályktað um það ófremdarástand sem ríkir í löggæslumálum Árnesinga.

Það er með öllu óviðunandi að þannig sé búið að lögregluembættinu að það geti ekki sinnt sínu lögbundna hlutverki. Ríkislögreglustjóri hefur áður sagt að hér ættu að vera 35 lögreglumenn. Nú stefnir í að þeir verði 21. Við slíka fækkun verður ekki unað.