Náttúran.is fær Kuðunginn

skrifað 30. apr 2012
KudungurinnKudungurinn

Eigendur vefsins www.natturan.is, þau Guðrún Tryggvadóttir og Einar Bergmundur Arnbjörnsson, fengu á dögunum umhverfisverðlaunin Kuðunginn sem Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra afhenti við hátíðlega athöfn. Við Hvergerðingar höfum löngum eignað okkur íbúana handan Varmár og gerum það í þetta sinn einnig en þau Guðrún og Einar búa í Breiðahvammi. Eru þeim hér með færðar innilegar hamingjuóskir í tilefni af þessari viðurkenningu.

Á heimasíðu ráðuneytisins kemur eftirfarandi m.a. fram:

*Náttúran.is hlaut Kuðunginn fyrir samnefnda „framúrskarandi vefsíðu um umhverfismál, og jákvæð áhrif þess á almenning og fyrirtæki.“ Segir í rökstuðningi valnefndar að stofnendur og eigendur hennar séu brautryðjendur á þessum vettvangi „knúin áfram af áhuga og umhyggju fyrir náttúrunni og umhverfinu.“

„Vefsíðan hefur innleitt nýja hugsun í umhverfisvitund Íslendinga. Þar eru á einum stað aðgengilegar leiðbeiningar sem auðvelda fólki að taka upp sjálfbæran og umhverfisvænni lífsstíl.

Vefurinn gengir mikilvægu hlutverki í upplýsingamiðlun og menntun almennings og fyrirtækja. Þar er hægt að fá upplýsingar um umhverfismál heimilisins, um orkusparnað, vistvæn innkaup, betri nýtingu matvæla, sorpflokkun, um hvernig skuli flokka hluti og hvar sé hægt að skila hverjum hlut, þar er að finna skilgreiningar á hverjum flokki fyrir sig, sem oft vefst fyrir fólki. Einnig geymir vefurinn fróðleik um hvernig hægt sé að forðast hættuleg efni við innkaup á vörum, þar er yfirlit yfir aukaefni í matvörum og skilgreiningar á umhverfismerkingum.“

Þá opnaði ráðherra í dag nýtt Endurvinnslukort Náttúrunnar.is sem sérstaklega er hannað fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Tilgangur Endurvinnslukortsins er að gefa almenningi nákvæmt yfirlit yfir hvar á landinu sé tekið við hvaða úrgangsflokkum til endurvinnslu. Það er öllum aðgengilegt, bæði á íslensku og ensku án endurgjalds, og verður að finna á www.natturan.is á næstu dögum.*

Fréttin á heimasíðu ráðuneytisins

Myndin af þeim Guðrúnu og Einari ásamt Svandísi Svavarsdóttir er fengin að láni af heimasíðu ráðuneytisins.