Markmið sett á hugarflugsfundi

skrifað 25. feb 2014
Hópurinn sem vinna mun úr þeim hugmyndum sem fram komu á fundinum. Hópurinn sem vinna mun úr þeim hugmyndum sem fram komu á fundinum.

Ný skólaþjónusta í Árnesþingi sem tók til starfa um áramót er samvinnuverkefni sveitarfélaga í Árnesþingi en sveitarfélögin Ölfus, Hveragerði, Grímsnes- og Grafningshreppur, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur, Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Flóahreppur standa að þjónustunni.

Skólaþjónustan er samtvinnuð velferðarþjónustunni sem samvinna var þegar orðin um milli þessara sömu sveitarfélaga. Forstöðumaður Skóla- og velferðarþjónustunnar er María Kristjánsdóttir, félagsráðgjafi.

Þegar hafa verið ráðnir þrír starfsmenn til Skólaþjónustunnar, Hugrún Vignisdóttir, sálfræðingur, Ólína Þorleifsdóttir, kennsluráðgjafi og Hrafnhildur Karlsdóttir, kennsluráðgjafi sem jafnframt er teymisstjóri hópsins. Hafa þær allar hafið störf.

Hugarflugsfundur nýrrar skólaþjónustu í Árnesþingi var haldinn miðvikudaginn 12. febrúar á Þingborg í Flóahreppi. Til fundarins voru boðaðir skólastjórar leik- og grunnskóla, sveitarstjórnarmenn og starfsmenn skólaþjónustunnar. Fundinum stýrði Gerður G. Óskarsdóttir, fyrrv. fræðslustjóri Reykjavíkur, en hún hefur unnið að undirbúningi stofnunar þjónustunnar í samvinnu við sveitarfélögin á svæðinu. Tilgangur fundarins var að sveitarfélögin í samvinnu við skólana myndu móta skýr sameiginleg markmið sem unnið verður að í skólunum og hjá starfsmönnum skólaþjónustunnar. Hugarflugsfundurinn tókst afar vel, voru umræður líflegar en hnitmiðaðar. Mótuðust á fundinum nokkuð skýrir áherslupunktar sem vinnuhópur sem skipaður var á fundinum mun vinna nánar og kynna síðan sem endanlegar niðurstöður fundarins og sem markmið skólaþjónustunnar næstu misserin.

Á döfinni er umfangsmikið námskeið fyrir skólastjórnendur á svæðinu þar sem áhersla verður á skólann sem lærdómssamfélag, forystu og leiðtogahlutverk skólastjórnenda. Er gert ráð fyrir að námskeiðið standi í nokkra daga sem dreifist yfir árið. Fyrsti námskeiðsdagurinn verður föstudaginn 28. febrúar 2014.