Aukið öryggi - Skólamörk lokað

skrifað 28. jan 2013
60afmæli60afmæli

Unnið er að bættu umferðaröryggi við Grunnskólann og því hefur verið ákveðið að loka Skólamörk að hluta frá og með 1. febrúar 2013.

Bæjarstjórn Hveragerðisbæjar hefur ákveðið að loka Skólamörk að hluta til fyrir almennri umferð frá og með 1. febrúar 2013, í samræmi við stefnumörkun í aðalskipulagi Hveragerðis 2005-2017. Þetta er gert til að auka umferðaröryggi við Grunnskólann.

Götunni verður lokað við Reykjamörk og við bílastæði skólans merkt „P” á meðfylgjandi mynd. Aðkoma að bílastæðinu verður frá Breiðumörk. Þannig verður Skólamörk botnlangagata frá Breiðumörk að bílastæðinu. Einstefnuakstur er á bílastæðinu eins og örvarnar á myndinni sýna.

Mælt er með því að þeir sem aka börnum að og frá skóla noti bílastæði, merkt P, P1, P2, P3 og P4 á meðfylgjandi mynd.

Með tilliti til öryggis barna er sérstaklega bent á bílastæði við Fljótsmörk merkt „P2”. Þessi bílastæði eru samsíða akbrautinni og því þarf ekki að bakka út úr þeim. Eðlilegast og öruggast er að aka inn í Fljótsmörk frá Reykjamörk og halda síðan áfram vestur götuna að Breiðumörk.

Nánari upplýsingar veitir skipulags- og byggingarfulltrúi í síma 4834000. Einnig eru veittar upplýsingar um lokunina á skrifstofu Grunnskólans í síma 4834350.

Á meðfylgjandi myn má sjá það fyrirkomulag sem verður á gatnakerfi í kringum Grunnskólann frá og með 1. febrúar n.k.