Listasafn Árnesinga tilnefnt til Eyrarrósarinnar

skrifað 05. mar 2015
Listasafn Árnesing, Austurmörk, Hveragerði. Listasafn Árnesing, Austurmörk, Hveragerði.

Listasafn Árnesinga er eitt af tíu framúrskarandi menningarverkefnum sem tilnefnt hefur verið til Eyrarrósarinnar árið 2015. Er þetta mikill heiður og viðurkenning á því starfi sem fram fer í Listasafninu undir stjórn Ingu Jónsdóttur.


Listi yfir þau 10 verkefni sem eiga möguleika á því að hljóta Eyrarrósina í ár hefur verið birtur. Meðal þeirra sem koma til greina í ár er Listasafn Árnesinga í Hveragerði.

Mikill fjöldi umsókna barst um Eyrarrósina hvaðanæva að af landinu en Eyrarrósin er viðurkenning sem veitt er framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar.

Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar, á sviði menningar og lista. Það eru Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík sem staðið hafa saman að verðlaununum frá upphafi árið 2005, en það ár fékk Þjóðlagahátíðin á Siglufirði viðurkenninguna.

Þann 18. mars verður tilkynnt hvaða þrjú verkefni hljóta tilnefningu til verðlaunanna.Þau verkefni sem verða tilnefnd hljóta peningaverðlaun og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Dorrit Moussaieff, verndari Eyrarrósarinnar afhendir verðlaunin þann 4. apríl. Til gamans má geta þess að áhöfnin á Húna hlaut Eyrarrósina 2014.

Í rökstuðningi dómnefndar kemur eftirfarandi fram:

Í Listasafni Árnesinga fer fram metnaðarfullt sýningarhald. Að jafnaði eru settar upp fjórar til sex sýningar á ári. Áherslan í sýningarhaldi og meginmarkmið safnsins er að efla áhuga, þekkingu og skilning á sjónlistum með sýningum, fræðslu, umræðu og öðrum uppákomum sem samræmast kröfu safnsins um metnað, fagmennsku og nýsköpun.

Listasafn Árnesinga

Um Eyrarrósina 2015 og verkefnin sem hlotið hafa viðurkenningu.

Fjölbreyttar sýningar eru settar upp í Listasafni Árnesinga. eyrarros