Tröllastóll í Bókasafninu á morgun

skrifað 16. apr 2012

Bókasafnsdagurinn verður haldinn hátíðlegur víða um land á morgun, þriðjudaginn 17. apríl. Hér í Hveragerði verður vegleg dagskrá í bókasafninu eins og sæmir þessum degi og verður safnið opið milli kl. 13 og 19.

Dagskránni eru gerð tæmandi skil undir sérstökum lið á heimasíðu bókasafnsins http://sites.google.com/site/bokasafnidihveragerdi/.

En sérstaka athygli vekur að sérkennilegt húsgagn verður tekið í notkun á safninu á morgun en kl. 14:00 verður "Tröllastóllinn" tekinn í notkun og um leið verður skemmtileg sögustund fyrir yngri börnin.

Stóllinn var búinn til í listasmiðju með indverska listamanninum Baniprossonno á vegum Listasafns Árnesinga s.l. haust og hefur hann nú verið afhentur bókasafninu að gjöf. Stóllinn verður staðsettur í barnadeildinni og verður eingöngu notaður sem sögustóll. Setu í stólnum fylgir sú kvöð að allir sem í hann setjast þurfa að segja eða lesa sögu!

Nú er spennandi að sjá hver verður fyrstur til að segja eða lesa sögu úr stólnum?