Lækkum byggingarkostnað !

skrifað 14. feb 2014
Hveragerðisbær - útsýni til suðurs.Hveragerðisbær - útsýni til suðurs.

Tillaga um 50% afslátt af gatnagerðargjaldi og niðurfellingu á gjaldi fyrir byggingarrétt var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar Hveragerðisbæjar í gær.

Tillagan er svohljóðandi:

Bæjarstjórn samþykkir að fella niður gjald fyrir byggingarétt af öllum lóðum í sveitarfélaginu sem sótt verður um á árinu 2014. Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að veita 50% afslátt af gatnagerðargjaldi lóða sem úthlutað er árið 2014.

Bæjarstjórn felur ennfremur skipulags- og mannvirkjanefnd að kanna möguleika þess að fjölga íbúðum í raðhúsum við Dalsbrún.

Bæjarstjórn gerði grein fyrir tillögunni með eftirfarandi greinargerð: Samkvæmt heimild í 4. gr. samþykktar um byggingargjöld í Hveragerði er bæjarstjórn heimilt að lækka eða fella niður gatnagerðargjald af einstökum lóðum í sveitarfélaginu við sérstakar aðstæður, svo sem vegna þéttingar byggðar, lítillar ásóknar í viðkomandi lóð eða eftirspurnar eftir leiguhúsnæði.

Enn er óúthlutað nokkrum lóðum við tilbúnar götur hér í Hveragerði. Í Dalsbrún eru lausar til úthlutunar 4 lóðir fyrir parhús, tvær lóðir fyrir þriggja íbúða raðhús og þrjár lóðir fyrir fjögurra íbúða raðhús. Við Smyrlaheiði eru 3 lóðir fyrir einbýlishús lausar til úthlutunar og ein við Varmahlíð.

Með því að fella niður gjald fyrir byggingarrétt og veita ríflegan afslátt af gatnagerðargjöldum er verið að veita húsbyggjendum umtalsvert betri kjör á byggingarlóðum en áður hefur tíðkast.

Bæjarstjórn telur rétt að kanna hvort hægt sé að fjölga íbúðum í þeim raðhúsum sem þegar eru skipulögð við Dalsbrún og að þannig gefist tækifæri til að byggja smærri íbúðir sem betur henta til dæmis ungu fólki og þeim sem vilja minnka við sig. Væri slík stefnubreyting í góðu samræmi við þær umræður sem hvað hæst ber núna um að minni íbúðir séu það sem markaðurinn kallar helst eftir.