Úttekt á rekstri Hveragerðisbæjar

Kynningarfundur 18. apríl kl. 20

skrifað 16. apr 2013
Blómlegt í Hveragerði Blómlegt í Hveragerði

Næstkomandi fimmtudag, þann 18. apríl kl. 20, mun Haraldur Líndal Haraldsson, rekstrarráðgjafi, kynna helstu niðurstöður úttektar sem gerð var að beiðni bæjarstjórnar á rekstri stofnana Hveragerðisbæjar. Fundurinn verður haldinn í Grunnskólanum í Hveragerði og er hann öllum opinn.


Gerð úttektar á öllum rekstri Hveragerðisbæjar var samþykkt samhljóða á fundi bæjarstjórnar þann 8. nóvember 2012. Á sama fundi var samþykkt að ganga til samninga við fyrirtækið HLH ehf um gerð úttektarinnar með það að markmiði að koma fram með tillögur að hagræðingu þannig að rekstur bæjarfélagsins skili meiri framlegð en nú er.

Bæjarstjórn lagði áherslu á að unnið væri hratt að úttektinni þannig að vinnan gæti nýst sem mest við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2013. Það tókst og sjást þess merki í núverandi fjárhagsáætlun. Það er þó jafn ljóst að unnið verður að ýmsum þeim breytingum og tillögum sem lagðar eru fram í úttektinni á næstu árum í góðri samvinnu bæjarstjórnar og starfsmanna bæjarfélagsins.

Á fyrrnefndum bæjarstjórnarfundi var eftirfarandi samþykkt samhljóða: "Það er einlægur vilji allra bæjarfulltrúa að þeir fjármunir sem bæjarbúar leggja í sameiginlega sjóði nýtist sem allra best með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi, úttekt sem þessi getur án vafa nýst vel í þeirri viðleitni."

Skýrslan var lögð fram í heild sinni þann 14. mars sl. Það er rétt að hvetja alla sem áhuga hafa á rekstri bæjarins til að kynna sér úttektina sem má finna á heimasíðu bæjarins. Úttektarskýrsla HLH

Við vinnslu verkefnisins var stuðst við gögn frá sveitarfélaginu og til samanburðar gögn frá öðrum sveitarfélögum sambærilegum að stærð hvað íbúafjölda varðar. Markmiðið með þessum samanburði var að reyna að finna hvað væri öðruvísi hjá Hveragerðisbæ miðað við þessi sveitarfélög sem nýtast mætti til hagræðingar í rekstri.

Í verkefninu fólst einnig að eiga samtöl við forstöðumenn og fara yfir fyrirkomulag rekstrar viðkomandi stofnunar. Jafnframt voru skoðuð bókhaldsgögn og rekstrarútgjöld könnuð. Einnig var nokkuð stuðst við upplýsingar úr ársreikningum sveitarfélaga á vef Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Næstkomandi fimmtudag, þann 18. apríl kl. 20, mun Haraldur Líndal Haraldsson, rekstrarráðgjafi, kynna helstu niðurstöður úttektarinnar á fundi í Grunnskólanum í Hveragerði. Allir velkomnir!

Aldís Hafsteinsdóttir

Bæjarstjóri