Kristinn ráðinn umhverfisfulltrúi

skrifað 06. apr 2013
Kristinn H. ÞorsteinssonKristinn H. Þorsteinsson

Samþykkt var samhljóða á fundi bæjarráðs síðastliðinn fimmtudag að ráða Kristinn H. Þorsteinsson sem umhverfisfulltrúa Hveragerðisbæjar. Alls bárust 57 umsóknir en fyrirtækið Capacent var ráðgefandi við ráðningarferlið.

Kristinn er menntaður garðyrkjufræðingur frá Garðyrkjuskóla ríkisins 1984 og hefur starfað við garðyrkju, skógrækt og landgræðslu í tæp þrjátíu ár. Hann var garðyrkjustjóri hjá Rafmagnsveitum Reykjavíkur, síðar Orkuveitu Reykjavíkur, um tuttugu ára skeið eða allt fram til ársins 2009. Auk þess hefur hann verið ræktunarstjóri hjá Skógræktarfélagi Reykjavíkur í tvö ár, kennt við Garðyrkjuskóla ríkisins í mörg ár og haldið utan um endurmenntun garðyrkjufræðinga í 24 ár. Kristin hefur haldið fjölda fyrirlestra og skrifað greinar um ræktun og umhverfismál í tímarit og dagblöð, stýrt sjónvarpsþáttum um garðyrkju og annast kennslu um umhverfismál fyrir grunnskólakennara síðastliðin 11 ár.

Kristinn var formaður Garðyrkjufélags Íslands 1999-2007, í varastjórn Skógræktarfélags Íslands frá 2010, sat í endurmenntunarráði Garðyrkjuskóla ríkisins 1996-2000, hefur setið í vara- og aðalstjórn Skógræktarfélags Kópavog frá 1999 og í stjórn Uppgræðslusjóðs Ölfuss frá 2008.

Í dag starfar Kristinn sem fræðslu- og verkefnastjóri hjá Garðyrkjufélagi Íslands, auk þess sem hann kennir í Umhverfissmiðju hjá fræðsluneti Suðurlands og víðar.

Kristinn er væntanlegur til starfa undir lok næstu viku og óskum við honum velfarnaðar í störfum sínum fyrir bæjarbúa.