Uppskeruhátíð íþróttamanna

skrifað 02. jan 2012
IMG_9796 (2)IMG_9796 (2)

Körfuknattleikskonan Íris Ásgeirsdóttir og Úlfar Andrésson, íshokkímaður, hafa verið valin íþróttamenn Hveragerðisbæjar árið 2011. Valið var tilkynnt á uppskeruhátíð menningar-, íþrótta- og frístundanefndar þann 30. desember sl.

Menningar-, íþrótta- og frístundanefnd bauð til uppskeruhátíðar í Listasafni Árnesinga þann 30. desember síðastliðinn og voru afhentar viðurkenningar til íþróttamanna fyrir góðan árangur á árinu og kjörnir íþróttamenn Hveragerðis árið 2011. Íþróttamenn Hveragerðis 2011 voru kjörin þau Íris Ásgeirsdóttir, körfuknattleikskona og Úlfar Jón Andrésson, íshokkímaður.

Íris hefur verið burðarás í kvennakörfunni hér í Hveragerði til fjölda ára. Hún hóf feril sinn í barna og unglingastarfinu og lék með glæsibrag upp alla flokka. Hún var fyrirliði meistaraflokks kvenna á síðustu leiktíð þegar stelpurnar urðu deildarmeistarar Iceland Express deildarinnar 2011. Með því var stærsti titill Körfuknattleiksdeildar Hamars, hingað til, í höfn.

Úlfar hefur æft sína íþrótt af kappi og hefur fjölskyldan lagt mikið á sig varðandi æfingar því ekki er mögulegt að stunda íshokkí hér í bæ. Úlfar er vinnusamur og metnaðarfullur íþróttamaður. Úlfar er fastamaður í karlalandsliði Íslands í íshokkí sem lenti í 3. sæti í 2. deild heimsmeistaramótsins sem haldið var í Króatíu í apríl.

Þeir íþróttamenn sem voru í kjöri til íþróttamanna ársins 2011 voru:

  • Hafsteinn Valdimarsson, blaki
  • Kristján Valdimarsson, blaki
  • Helga Hjartardóttir, fimleikum
  • Þuríður Gísladóttir, golfi
  • Gunnar Marel Einarsson, golfi
  • Marteinn Sindri Svavarsson, knattspyrnu
  • Íris Ásgeirsdóttir, körfuknattleik
  • Úlfar Jón Andrésson, íshokkí

Menningar-, íþrótta- og frístundanefnd heiðraði einnig 5 ungmenni sem voru landsliðsmenn, Íslandsmeistarar og bikarmeistarar á árinu.

Jóhanna M. Hjartardóttir menningar- og frístundafulltrúi

IMG_9781 (2)