Börn boðin velkomin - bæjarbúum fjölgar

skrifað 19. jan 2015
jólagjafir 2014jólagjafir 2014

Í samþykkt um framtíðarsýn og möguleika Hveragerðisbæjar kom fram að fagna bæri hverju fæddu barni í bæjarfélaginu. Um jólin þótti við hæfi að bjóða þau velkomin sem fædd eru árið 2014 en nú búa í Hveragerði 35 börn á fyrsta ári. Því var ákveðið að færa þeim, hverju og einu, lítinn pakka frá bæjarfélaginu þar sem þau eru sérstaklega boðin velkomin. Á aðfangadag voru síðan pakkarnir 35 keyrðir út og hvert barn á nú hina góðu og löngu sígildu Vísnabók frá Forlaginu þeim vonandi til gleði um ókomna framtíð.

Íbúar í Hveragerði hafa aldrei verið fleiri en nú eða 2.387 og hefur þeim fjölgað um rúm 2% frá fyrra ári. Verður spennandi að fylgjast með þróuninni á næstu misserum og eins hvort að bæjarstjórinn þurfi að kaupa fleiri Vísnabækur í desember 2015 heldur en gert var árið 2014.

Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri