Íbúum fjölgað um 716 frá 1998

skrifað 13. apr 2015
ReykjafossReykjafoss

Aldursgreind íbúaþróun í Hveragerði milli áranna 1998 til ársins 2015 var kynnt á fundi bæjarráðs þann 1. apríl s.l.

Íbúar Hveragerðis voru á árinu 1998 1.668 talsins en eru nú 2.384. Fjölgun á þessum 17 árum er því 716 einstaklingar eða 42,9%. Á sama tímabili fjölgaði landsmönnum um 20,8% þannig að ljóst er að fjölgun hér í Hveragerði hefur verið langt umfram landsmeðaltal á síðastliðnum misserum. Slíkt var einnig reyndin á árinu 2014 þegar íbúum fjölgaði um 2,2%.

Það er ánægjulegt að sífellt fleiri skuli velja Hveragerði til búsetu en ekki er útlit fyrir annað en að fjölgunin haldi áfram á næstunni.