Hveragerðisbær færir Háskóla Íslands gjöf

skrifað 22. des 2014
VarmáVarmá

Hveragerðisbær hefur fært umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands að gjöf mælitæki og búnað sem ákvarðar líffræðilega súrefnisþörf (BOD) og magn svifagna í skólpi. Berist of mikið af skólpi (eða öðrum lífrænum efna) í vatnaviðtaka getur það leitt til súrefnisþurrðar þannig að vatnavistverur deyi. Niðurstöður BOD og svifagnatilrauna gefa til kynna mengun í skólpi og möguleg neikvæð áhrif þess á vatnavistkerfi. Tilraunirnar eru mikilvægar til þess að meta og fylgjast með skilvirkni skólphreinsistöðva. Búnaðurinn verður nýttur í verklega kennslu í fráveitum og skólphreinsun. Í fréttatilkynningu frá Háskóla Íslands kemur fram að með þessari gjöf styrkist aðstaða umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands til að þjálfa nemendur í mælitækni á sviði skólphreinsunar, sem er eitt af undirstöðu fagsviðum umhverfisverkfræði. Í sömu tilkynningu kemur fram að Háskóli Íslands þakki Hveragerðisbæ kærlega fyrir þessa rausnarlegu gjöf sem mun efla nám í umhverfis- og byggingarverkfræði. Mælitækin voru staðsett í fráveitumannvirki Hveragerðisbæjar en vegna breytts verklags nýtast þau ekki lengur þar.