Húsfyllir á upplestri í Listasafninu

skrifað 02. des 2011
IMG_9659IMG_9659

Listasafn Árnesinga og Bókasafnið í Hveragerði buðu til sannkallaðrar menningarveislu í Listasafninu fullveldisdaginn 1. desember.

Það er orðin árleg hefð að Bókasafnið í Hveragerði og Listasafn Árnesinga bjóði upp á lestur úr nýjum bókum í Listasafninu 1. desember með tónlistarívafi, kertaljósum og piparkökum.

Í ár lásu höfundar úr fjórum nýjum skáldsögum sem voru Bónusstelpan eftir Rögnu Sigurðardóttur, Meistaraverkið og fleiri sögur eftir Ólaf Gunnarsson, Trúir þú á töfra? eftir Vigdísi Grímsdóttur og Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thorsson. Þá lásu einnig Björg Einarsdóttir og Hildur Hákonardóttir hluta af sínum köflum úr bókinni Á rauðum sokkum - baráttukonur segja frá sem Olga Guðrún Árnadóttir ritstýrði.

Irena Silva Roe setti síðan skemmtilegan svip á kvöldið en hún spilaði listilega á fiðluna í hléi. Húsfyllir var á upplestrinum og var greinilegt að gestir skemmtu sér hið besta enda var upplesturinn bæði líflegur og skemmtilegur.

Inga á Listasafninu og Hlíf á Bókasafninu eiga heiður skilinn fyrir þetta frábæra framtak.

Á meðfylgjandi mynd má sjá hópinn sem sá um upplesturinn ásamt Ingu og Hlíf. Einnig má hér sjá Irenu og hluta af gestum kvöldsins.

IMG_9658IMG_9660