Hulda Jónsdóttir hlýtur styrk

skrifað 03. júl 2013
Hulda Jónsdóttir, fiðluleikari. Hulda Jónsdóttir, fiðluleikari.

Það er sérlega ánægjulegt þegar fólkinu okkar vegnar vel og því vakti það athygli Hvergerðinga þegar Hulda Jónsdóttir, fiðluleikari hlaut nýverið styrk úr Minningarsjóði um franska hljómsveitarstjórann Jean-Pierre Jacquillat, en styrkurinn var veittur við hátíðlega athöfn í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar.

Við höfum fylgst með Huldu frá því hún hóf nám í fiðluleik kornung en hún hefur spilað hér í Hveragerði við fjölmörg tækifæri frá upphafi náms síns. Hulda er dóttir hjónanna Jóns Ragnarssonar sóknarprests og konu hans Gyðu Þ. Halldórsdóttur.

Hulda lauk í vor BA-gráðu í fiðluleik frá Juilliard-listaháskólanum í New York og hefur meistaranám við sama skóla í haust. Hulda hefur komið fram á tónleikum víða um heim, meðal annars í Noregi, Sviss, Bandaríkjunum og Mexíkó, en hún er aðeins tuttugu og eins árs gömul.

Hulda hefur í nógu að snúast þangað til hún fer aftur út til Bandaríkjanna um miðjan ágúst. Stærstu verkefnin eru tónleikar í Sigurjónssafni 30. júlí og í Salnum í Kópavogi 11. ágúst.

Við óskum Huldu velfarnaðar í framtíðinni um leið og við óskum henni til hamingju með styrkinn.