Heimsóknir erlendra gesta

skrifað 25. maí 2012
IMG_0406IMG_0406

Stækkunarstjóri Evrópusambandsins og hópur kennarara frá Evrópu heimsóttu Hveragerði sama daginn. Í báðum tilfellum prófuðu gestirnir jarðskjálftaherminn á sýningunni Skjálftinn 2008 og líkaði vel.

Fjöldi erlendra gesta heimsækir Hveragerði árlega og tökum við sem sveitarfélag á móti sumum þeirra. Í gær, fimmtudag, var tekið á móti tveimur hópum erlendra gesta. Bæjarstjóri fylgdi Stefan Füle, stækkunarstjóra Evrópusambandsins, frá Hellisheiðarvirkjun og til Hveragerðis þar sem hópurinn skoðaði Hveragarðinn og sýninguna Skjálftann 2008. Sýndi Stefan málefnum Hveragerðis mikinn áhuga og þótti mikið til um þá ferðaþjónustu sem hér er veitt og þann fjölda ferðamanna sem hingað koma. Hveragarðurinn og Skjálftinn 2008 vakti einnig mikla athygli en það gera þessir staðir ávallt þegar gestir okkar heimsækja þá.

Einnig tók bæjarstjóri á móti hópi 14 kennara frá Írlandi, Noregi, Bretlandi og Frakklandi sem eru í samstarfi við grunnskólann hér á vegum Comeniusar verkefnisins sem hér er í gangi. Þau skoðuðu að sjálfsögðu Skjálftasýninguna en síðan var farið yfir ýmislegt er varðaði bæjarfélagið. Spunnust líflegar og skemmtilegar umræður um hin ýmsu málefni, langt frá því öll tengd Hveragerði, en þau vildu fræðast um fjármálahrunið, jafnréttismál, félagsmál og margt margt fleira. Mjög líflegur og skemmtilegur hópur sem í dag föstudag heldur stóra kynningu fyrir ungmenni Grunnskólans á þeim verkefnum sem unnin eru í þeirra heimaskólum. Eykur verkefni sem þetta víðsýni og umburðarlyndi en til þess er einmitt leikurinn gerður.

Það er gaman að því að þessar tvær heimsóknir skuli hitta á sama daginn þar sem Comeniusar verkefnið er afsprengi Evrópusambandsins.