Hamarshöllin komin upp

skrifað 08. júl 2012
Hamarshöllin komin upp. Hamarshöllin komin upp.

Hamarshöllin reis um miðnætti í gær. Gekk verkið vonum framar eftir að lyngdi og reis húsið á tæpum klukkutíma.

Loksins lyngdi á Vorsabæjarvöllum um klukkan hálf tólf í gærkvöldi og þá um leið var tekin ákvörðun um að blása upp Hamarshöllina. Gekk það vonum framar og á rétt tæpum klukkutíma var höllin risin. Vafalaust langstysti byggingartími húss sem um getur.

Fjöldi manns fylgdist með þegar höllin blés út og hópurinn fékk síðan að líta inní Höllina þegar hún var komin upp og erlendu sérfræðingarnir höfðu fullvissað sig um að allt hefði þetta gengið samkvæmt bókinni.

Það var sérstök tilfinning að ganga inn og sjá hversu stórt húsið er þegar það er komið upp og sjá hvernig ungir sem eldri nutu þess að upplifa húsið. Börnin sem fengið höfðu að vaka frameftir voru alsæl og voru strax farin að spreyta sig með bolta á gervigrasinu.

En framundan er frágangur innandyra sem utan áður en formleg vígsluhátíð fer fram á Blómstrandi dögum í ágúst.

Allir sem komið hafa að þessu verki eiga heiður skilinn fyrir sitt framlag. Hafið kærar þakkir fyrir. Til hamingju Hvergerðinar með glæsilega íþróttaaðstöðu !

Aldís Hafsteinsdóttir Bæjarstjóri

Margir leggja nú leið sína að höllinni til að skoða mannvirkið. Blásturinn hafinn um hálf tólf í gærkvöldi.Árni Svavarsson, Guðmundur F. Baldursson og Birkir Árnason hafa nú fengið nýtt mannvirki að hugsa um.Öllu lokið og farið heim um kl. 2:30 í nótt.