Hamar lengjubikarmeistari í fótbolta

skrifað 09. maí 2016
Lengjubikarmeistarar í C-deild 2016Lengjubikarmeistarar í C-deild 2016

Strákarnir í Hamri urðu Lengjubikarmeistarar 2016 í C-deild í knattspyrnu eftir sigur á KFG. Flottur árangur hjá strákunum og lofar góðu fyrir sumarið.

Þeir sýndu mikla baráttu með að koma sterkir til baka eftir að hafa verið 3-1 undir. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 3-3 en KFG leiddi fram á 75. mínútu þegar varamaðurinn Páll Pálmason skoraði annað mark Hamars. Hann jafnaði svo metin mínútu síðar.

Hvergerðingar voru svalari á punktinum í vítakeppninni, skoruðu úr þremur spyrnum en KFG úr tveimur. Nikulás Snær Magnússon, markvörður Hamars, varði tvær spyrnur frá leikmönnum KFG. Það var síðan Kristinn H. Runólfsson sem skoraði úr síðustu spyrnu Hamars og tryggði liðinu sigurinn.

Þetta er fyrsti titill Hamars í meistaraflokki karla í fótbolta en liðið leikur í 4. deild í sumar.

Það er gaman að fylgjast með strákunum á facebook undir Hamar Knattspyrna, en þar birtast fréttir og leikmannakynningar reglulega.

Fyrsti leikur Hamars í Borgunarbikarkeppni KSÍ á Grýluvelli er á miðvikudag 11. maí kl. 19. Þá taka Hamarsmenn á móti Reyni Sandgerði.

Mætum öll á völlinn og hvetjum okkar menn.

Við óskum þeim góðs gengis í sumar