Grænfáninn kominn í Grunnskólann

skrifað 02. des 2011
Það voru nemendur 6 ára bekkja sem drógu Grænfánann að húni.Það voru nemendur 6 ára bekkja sem drógu Grænfánann að húni.

Á fullveldisdaginn þann 1. desember s.l. afhenti fulltrúi Landverndar Grunnskólanum í Hveragerði Grænfánann sem tákn um framúrskarandi starf að umhverfismálum í skólanum. Unnið hefur verið að þessu marki í nokkur misseri innan skólans en formlega hófst undirbúningur árið 2008 sem stofnun umhverfsnefndar innan skólans.

Í umhverfisnefnd skólans sitja sex fulltrúar nemenda (tveir nemendur af hverju stigi, úr 4., 6. og 8. bekk), einn kennari af hverju stigi (alls þrír), fulltrúi skólastjórnenda, húsvörður, forsvarsmaður útistofu, auk verkefnisstjóra. Val nemenda fór fram með mismunandi hætti eftir stigunum, stundum fóru fram kosningar í bekkjum og stundum var komið að máli við nemendur sem sýnt höfðu sérstakan áhuga á umhverfismálum.

Á heimasíðu Grænfánans kemur fram að Grænfáninn sé umhverfismerki sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö sem stíga þarf áður en fáninn er hífður að húni eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau auka þekkingu nemenda og skólafólks og styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum skóla. Jafnframt sýnir reynslan í Evrópu að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.

Innan Grunnskólans í Hveragerði hafa Garðar Árnason og Ari Eggertsson, kennarar, borið hitann og þungann af undirbúningi þessarar umhverfisvottunar. Svona viðurkenning kemur ekki af sjálfu sér heldur er hún afrakstur umfangsmikillar undirbúningsvinnu og mikils vinnuframlags allra sem að verkefninu hafa komið. Er öllum þeim sem að verkefninu hafa komið færðar hinar bestu þakkir fyrir þeirra framlag.

Umhverfismál hafa ávallt skipt miklu máli en í nútíma samfélagi er lífsspursmál að gjörðir okkar spilli ekki umhverfi og möguleikum komandi kynslóða. Fræðslan í skólanum gegnir þar stóru hlutverki. Nú verður haldið áfram á sömu braut því auðvitað er grænfáninn kominn til að vera.

Nemendum og starfsfólki Grunnskólans í Hveragerði eru hér með færðar innilegar hamingjuóskir í tilefni af þessum áfanga.

Aldís Hafsteinsdóttir Bæjarstjóri.