Göngum í skólann

skrifað 04. sep 2015
byrjar 09. sep 2015
 
Göngum í skólann

Göngum í skólann www.iwalktoschool.org verður hleypt af stokkunum í níunda sinn 9. september næstkomandi og lýkur því formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum miðvikudaginn 7. október.
Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.
Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta eða hjólabretti.

Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.

Á síðasta ári tóku milljónir barna í yfir 40 löndum víðs vegar um heiminn þátt í Göngum í skólann. Hér á landi hefur þátttakan vaxið jafnt og þétt en fyrsta árið voru þátttökuskólarnir 26 en 66 skólar skráður sig til leiks árið 2014.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands hefur hlotið styrk frá Evrópuráðinu í gegnum Erasmus+ styrkjakerfi þeirra til verkefna sem munu tengjast European Week of Sport eða Íþróttaviku Evrópu sem haldin verður 7. – 13. september nk. í yfir 30 Evrópulöndum.

Markmiðið með Íþróttaviku Evrópu er að kynna íþróttir og almenna hreyfingu um alla Evrópu og sporna við auknu hreyfingarleysi meðal almennings. Sjá nánar á www.ec.europa.eu/sport/week.

Á heimasíðu Göngum í skólann www.gongumiskolann.is eru allar nánari upplýsingar um verkefnið en þar má meðal annars finna skemmtilegar útfærslur nokkurra skóla á Íslandi á verkefninu auk ýmiss annars efnis frá þátttökuskólunum.
Einnig er hægt að hafa samband við Hrönn Guðmundsdóttir, verkefnastjóra Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ í síma: 514-4000 eða á netfangið hronn@isi.is