Gjöf til leikskólabarna

skrifað 16. júl 2019
IMG_1536

Bryndís Guðmundsdóttir, talmeinafræðingur, kom færandi hendi til Hveragerðis í morgun með gjöf til leikskólabarna á starfssvæði Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Færði Bryndís börnum svæðisins þjálfunarefni sem bætir framburð barna, eykur orðaforða og undirbýr læsi.


Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur ákvað í tilefni þess að hún er búin að starfa sem talmeinafræðingur í 30 ár að gefa öllum leikskólum á Íslandi námsefni eftir sig, Lærum og leikum með hljóðin. Kom hún færandi hendi til Hveragerðis í morgun með gjöf til leikskólabarna á starfssvæði Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings. Færði Bryndís börnum svæðisins þjálfunarefni sem bætir framburð barna, eykur orðaforða og undirbýr læsi.

Námsefnið er ætlað barnafjölskyldum og skólum en efnið byggir á fagþekkingu talmeinafræðinnar, rannsóknum og reynslu Bryndísar af því að vinna með börnum, foreldrum og fagfólki skóla. Efnið hefur hlotið ýmsar viðurkenningar.

Með stuðningi fyrirtækjanna Lýsis, Marels, IKEA og hjónanna Björgúlfs Thors og Kristínar Ólafsdóttur, auk eigin fjármagns fá nú allir leikskólar á landinu efnið gefins í veglegri gjafaöskju. Um er að ræða heildstætt efni úr Lærum og leikum með hljóðin (L&L) sem skólarnir fá að gjöf til að nýta í starfi sinu með leikskólabörnum. Aukaefni eins og púsl, límmiðar og vinnusvuntur, sem styðja við hljóðnámið með fallegum stafamyndum, fylgir skólapökkunum.

Bryndís segir að það sé mikilvægt að leggja grunn að læsi frá unga aldri með áherslu á þá þætti sem rannsóknir sýna að skipta meginmáli fyrir framtíðarnám barnanna okkar. Lærum og leikum með hljóðin kennir framburð hljóða, hljóðavitund og bókstarfi, þjálfar hljóðkerfisþætti, eykur orðaforða og hugtakaskilning, auk þess að gefa fyrirmynd að setningagerð og mörgum málfræðiþáttum íslenskunnar.

Bryndís segir það von allra þeirra sem standa að verkefninu að með góða íslenskukunnáttu og læsi í farteskinu aukist framtíðarmöguleikar og jöfnuður meðal allra barna sem alast upp á Íslandi.

Hveragerðisbær og Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings þakka kærlega fyrir gjöfina!

Á meðfylgjandi mynd má sjá Bryndísi ásamt Önnu Stefaníu Vignisdóttur, talmeinafræðingi og Aldísi Hafsteinsdóttur, bæjarstjóra en þær veittu hinni rausnarlegu gjöf viðtöku.