Frístundastyrkir barna 0-18 ára

skrifað 22. sep 2015
Frístundastyrkur greiðist vegna tómstunda hvers konar. Frístundastyrkur greiðist vegna tómstunda hvers konar.

Reglur um frístundastyrki barna í Hveragerðisbæ hafa verið samþykktar af bæjarstjórn.

Frístundastyrkur árið 2015 nemur kr. 12.000,- á barn.

Meginmarkmið frístundastyrks til barna í Hveragerði er að tryggja að öll börn og unglingar í bæjarfélaginu geti tekið þátt í uppbyggilegu frístundastarfi og að foreldrum þeirra og forráðamönnum verði gert auðveldara að standa straum af þeim kostnaði sem af þátttökunni hlýst.

Frístundastyrkur er framlag Hveragerðisbæjar til greiðslu kostnaðar styrkþega vegna náms utan hefðbundins skólanáms, þátttöku í hverskonar barna- og unglingastarfi á vegum viðurkenndra félagasamtaka og tómstundastarfs.

Frístundastyrkurinn eykur jöfnuð í samfélaginu og fjölbreytileika í iðkun íþrótta-, lista- og tómstundastarfsemi.

Skilyrði fyrir styrk er að styrkþegi eigi lögheimili í Hveragerðisbæ og sé á aldrinum 0-18 ára, miðað við fæðingaár.

Að um skipulagt starf, kennslu eða þjálfun sé að ræða af viðurkenndum aðila sem lagt hefur fram upplýsingar um starfsemi sína til menningar- og frístundafulltrúa. Sem dæmi um slíkt má nefna: ungbarnasund, tónlistarnám, skátastarf, íþróttaæfingar, leiklist, söngnám, leikjanámskeið, skólagarðar, sundnámskeið o.m.fl.

Styrkurinn getur aldrei numið hærri upphæð en þeirri sem kemur fram á framlögðum greiðslukvittunum.

Útborgun styrks.

Foreldrar/forráðamenn greiða fyrir frístundastarf barna sinna. Þeir sem uppfylla ofangreind skilyrði skulu leggja fram á skrifstofu Hveragerðisbæjar frumrit greiðslukvittunar og fylla út umsóknareyðublað sem þar liggur frammi.

Innan fárra daga verður árlegur styrkur lagður inn á reikning viðkomandi foreldris/forráðamanns.

Frístundastyrkur árið 2015 nemur kr. 12.000,- á barn.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri