Fjárhagur í traustum skorðum

skrifað 18. des 2015
Morgunsól í nóvember 2015Morgunsól í nóvember 2015

Á árinu 2016 er álagningarprósentum haldið óbreyttum frá fyrra ári og gjaldskrár munu velflestar hækka um 2% milli ára sem er í samræmi við verðlagsþróun síðastliðinna 12 mánuði. Fjárfest verður fyrir nærri 300 mkr á árinu 2016 og ber þar hæst byggingu nýs leikskóla. Til að mæta þörf fyrir nýjar byggingalóðir er gert ráð fyrir landakaupum á árinu en íbúum í Hveragerði fjölgar nú langt umfram það sem gert var ráð fyrir. Skuldahlutfall bæjarins verður 106% í lok árs 2016.


Í umræðu um fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2016 sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar þann 10. desember s.l. kom fram að fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2016 er unnin með það að markmiði að íbúum Hveragerðisbæjar verði tryggð besta mögulega þjónusta og að reynt verði eftir fremsta megni að halda álögum í sem bestu samræmi við það sem gerist í samanburðarsveitarfélögum.

Íbúum fjölgar hratt

Íbúum hefur fjölgað umtalsvert á árinu og eru samkvæmt síðustu tölum 2.448 en voru 2.383 í lok árs 2014 er það fjölgun um 2,7%. Úthlutun lóða hefur gengið vel á árinu og hefur nokkur fjöldi nýrra íbúða verið tekinn í notkun og fleiri eru í farvatninu. Vonast bæjarstjórn til að áfram fjölgi í bæjarfélaginu á næstu misserum.

Álögum haldið óbreyttum

Í fyrri umræðu er gert ráð fyrir óbreyttri útsvarsprósentu eða 14,52%

Álagningarprósentur fasteignagjalda eru óbreyttar á alla flokka húsnæðis. Þannig að greidd fasteignagjöld munu eingöngu hækka um sem nemur hækkun fasteignamats. Gjöld vegna sorphirðu og sorpurðunar hækka um 2% og verður gjald vegna sorphirðu 17.200,- en vegna sorpurðunar 13.400,-.

Gjaldskrár hækka um 2%

Bæjarstjórn hefur undanfarin ár miðað hækkun gjaldskráa við verðlagsþróun síðastliðins árs en ekki við verðbólguspá komandi árs. Með þessu móti telur bæjarstjórn sig vinna með rauntölur sem hlýtur að vera eðlilegra en að hækka gjaldskrár á undan verðbólgunni en slíkt eykur verðbólguþrýsting. Gjaldskrár hækka því miðað við verðlagsþróun 2015 eða um 2% að jafnaði. Í öllum tilfellum er hagur bæjarbúa hafður að leiðarljósi og hækkunum stillt í hóf eins og mögulegt er.

Helstu rekstrarstærðir

Heildartekjur Hveragerðisbæjar þ.e. tekjur samstæðu (aðalsjóðs, A- og B- hluta) munu nema alls kr. 2.272 m.kr. fyrir árið 2016. Rekstrargjöld og reiknaðar afskriftir samstæðu verða um 2.092 m.kr..

Niðurstaða samstæðu án fjármagnsliða er því jákvæð um 180 milljónir. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 148 m.kr. og er rekstrarniðurstaða samstæðu því jákvæð um 31,6 m.kr.. Gert er ráð fyrir 3% verðbólgu á árinu 2016.

Afborganir langtímalána verða rúmlega 170 m.kr. og tekin ný lán munu nema 243 m.kr. á árinu 2016. Í lok árs 2016 verða langtímaskuldir samstæðu 2.310 m.kr.. Þar af er lífeyrisskuldbinding sveitarsjóðs 480 m.kr. og skuldbindingar vegna leigugreiðslna í Sunnumörk 261 m.kr.

Fjárfest fyrir nærri 300 mkr.

Til að mæta þörf fyrir nýjar byggingalóðir eru settar 50mkr til landakaupa á árinu 2016. Stærsta einstaka fjárfesting ársins 2016 er nýr leikskóli en bygging hans mun hefjast á árinu 2016. Fjármunir eru settir til endurbóta í Sundlauginni í Laugaskarði. Gert er ráð fyrir að lagt verði slitlag á bílastæði við Hamarshöll að hluta og ennfremur er gert ráð fyrir yfirlagi á eldri götur í þéttbýlinu ásamt endurbótum á gönguleiðum. Bæjarfélagið hefur nú eignast Mjólkurbúið að öllu leyti og þar er fyrirhugað að fara í endurbætur á ytra byrði hússins. Framkvæmdir verða þó nokkrar við fráveitu og vatnsveitu en aðrar fjárfestingar eru smærri.

Skuldahlutfallið verður 106%

Skuldir og skuldbindingar Hveragerðisbæjar í lok ársins 2016 munu verða 115% af árstekjum. Skv. fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingu vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar. Sé það gert myndi skuldahlutfallið batna enn frekar og verða 106%. Er skuldastaða sveitarfélagsins því vel undir skuldaþakinu sem lögfest hefur verið í sveitarstjórnarlögum og batnar hlutfallið með hverju árinu sem líður eins og best sést á 3. ára áætlun þar sem fram kemur að skuldahlutfallið í samræmi við ofangreint mun verða 88% árið 2019.

Fjárhagsáætlun ársins 2016 var unnin af öllum bæjarfulltrúum sameiginlega og var samstarfið afar ánægjulegt. Fyrir það ber að þakka. Ennfremur er skrifstofustjóra og öðrum starfsmönnum þakkað framúrskarandi gott samstarf við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri.