Hveragerði vel undir "skuldaþakinu"

Fjárhagsáætlun lögð fram til fyrri umræðu þann 29. nóvember 2012.

skrifað 06. des 2012

Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2013 er unnin með það að markmiði að íbúum Hveragerðisbæjar verði tryggð besta mögulega þjónusta og að reynt verði eftir fremsta megni að halda álögum í sem bestu samræmi við það sem gerist í samanburðarsveitarfélögum.


Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2013 var lögð fram til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar þann 29. nóvember sl.

Á fundinum kynnti bæjarstjóri áætlunina og lagði fram eftirfarandi greinargerð:

Fjárhagsáætlun ársins 2013 var unnin af öllum bæjarfulltrúum sameiginlega og var samstarfið allt hið ánægjulegasta. Fyrir það ber að þakka. Ennfremur er skrifstofustjóra og öðrum starfsmönnum þakkað framúrskarandi gott samstarf við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2013.

Almennt:

Fjárhagsáætlun Hveragerðisbæjar fyrir árið 2013 er unnin með það að markmiði að íbúum Hveragerðisbæjar verði tryggð besta mögulega þjónusta og að reynt verði eftir fremsta megni að halda álögum í sem bestu samræmi við það sem gerist í samanburðarsveitarfélögum.

Bæjarstjórn samdi á haustmánuðum við Harald Líndal Haraldsson um að farið yrði í úttekt á rekstri Hveragerðisbæjar. Hefur verið unnið að þeirri úttekt á undanförnum vikum en við vinnuna er unnið með samanburð tilsvarandi stofnana í sambærilegum sveitarfélögum. Tekið hefur verið tillit til nokkurra liða sem þegar hafa komið fram í væntum niðurstöðum Haraldar við gerð fjárhagsáætlunar ársins 2013. Ljóst er þó að unnið verður með niðurstöður hans á næstu misserum og mun áhrifa þeirra gæta á næstu árum í bættum rekstri sem aftur gefa vonir um að hægt verði að lækka álögur á bæjarbúa eða bæta þjónustu við þá enn frekar.

Markmið:

Markmið bæjarstjórnar við gerð áætlunarinnar er að skilyrði nýrra sveitarstjórnarlaga verði uppfyllt en í því felst m.a. að:

• Samanlögð rekstrarniðurstaða samstæðu A/B hluta skal vera jákvæð á hverju þriggja ára tímabili.

• Heildarskuldir og skuldbindingar séu ekki hærri en sem nemur 150% af tekjum.

Forsendur:

Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2013 er tekið mið af væntum rauntölum ársins 2012. Á árinu 2011 var samið um kjarabætur og eru áætlaðar um 4,5% hækkanir launa á árinu 2013. Undir lok árs 2012 hefur heldur rofað til hvað varðar íbúafjölgun og vonast bæjarstjórn til að heldur fari að fjölga í bæjarfélaginu á næstu misserum.

• Útsvarsprósenta verður óbreytt eða 14,48%.

• Álagningarprósentur fasteignagjalda verða með þeim hætti að álögur á íbúðaeigendur munu eingöngu hækka um sem nemur hækkun fasteignamats. Breyting er gerð á innbyrðis prósentum sem ekki hefur áhrif á heildaálagninguna.

• Gert er ráð fyrir að framlag Jöfnunarsjóðs hækki frá áætlaðri niðurstöðu ársins 2012 og byggir áætlun ársins 2013 á rauntölum ársins 2012.

• Gjaldskrár hækka almennt miðað við verðlagsþróun undanfarins ár eða um 4,19%. Í öllum tilfellum er hagur bæjarbúa hafður að leiðarljósi og hækkunum stillt í hóf eins og mögulegt er.

• Fjárhagsáætlanir einstakra deilda eru unnar í góðri samvinnu við forstöðumenn stofnana og ber að þakka þann einlæga vilja og jákvæðni sem starfsmenn hafa sýnt við gerð fjárhagsáætlunarinnar. Ætlast er til að forstöðumenn sýni ýtrustu hagræðingu bæði í innkaupum og í starfsmannahaldi.

• Lögð er rík áhersla á endurbætur eigna árið 2013 og í fjárfestingu er meðal annars gert ráð fyrir klæðningu handmenntahúss og viðhaldi skólamannvirkja, fráveitu og vatnslögnum í og við sundlaugina Laugaskarði, parket á gólf íþróttahússins við Skólamörk ennfremur er gert ráð fyrir kaupum á bifreið fyrir áhaldahús og áframhaldandi uppbyggingu göngustígakerfis bæjarins.

Rekstrartölur:

Áætlaðar heildartekjur Hveragerðisbæjar (aðalsjóðs, A- og B- hluta) nema alls kr. 1.746 mkr. fyrir árið 2013. Þar af eru skatttekjur ráðgerðar kr. 915 milljónir. Framlög Jöfnunarsjóðs eru áætluð 389 mkr. og aðrar tekjur bæjarsamstæðu eru rétt um 442 mkr. Rekstrargjöld og reiknaðar afskriftir samstæðu nema um 1.550 mkr. Niðurstaða samstæðu án fjármagnsliða er því jákvæð um 196 milljónir sem er 11,22% af tekjum. EBITDA Hveragerðisbæjar er 281 mkr. Fjármagnsliðir eru áætlaðir 167 mkr og er rekstrarniðurstaða samstæðu því jákvæð um 29 mkr. Gert er ráð fyrir nokkurri hækkun fjármagnsliða milli ára en í áætlun er gert ráð fyrir 3,9% verðbólgu. Samanlögð rekstrarniðurstaða áranna 2011, 2012 og 2013 verður því jákvæð um 7.7 mkr sem er í samræmi við ákvæði nýrra sveitarstjórnarlaga.

Skuldir og skuldbindingar:

Afborganir langtímalána verða rúmlega 156 mkr og engin ný lántaka mun eiga sér stað á árinu 2013. Í lok árs 2013 verða langtímaskuldir samstæðu 2.154 mkr. Þar af er lífeyrisskuldbinding sveitarsjóðs 360 mkr. Skuldir og skuldbindingar Hveragerðisbæjar í lok ársins 2013 munu verða 139% af árstekjum. Skv. fjármálareglum sveitarfélaga er heimilt að draga frá skuldum skuldbindingu vegna lífeyris sem fellur til eftir 15 ár og síðar. Sé það gert myndi skuldahlutfallið batna enn frekar og mun það sjást í ársreikningi. Er skuldastaða sveitarfélagsins því vel undir skuldaþakinu sem lögfest hefur verið í nýjum sveitarstjórnarlögum.

Lokaorð:

Nánari útfærsla einstakra liða mun koma fram i ítarlegri greinargerð sem lögð verður fram við síðari umræðu um fjárhagsáætlun þann 13. desember nk.

Samþykkt var samhljóða að vísa fjárhagsáætlun til síðari umræðu sem fram fer þann 13. desember 2012.

Aldís Hafsteinsdóttir