Fiskasýning á leikskólanum Óskalandi

skrifað 07. sep 2016
Bláháfur fyrir miðri mynd Bláháfur fyrir miðri mynd

Bláháfur vakti gríðarlega athygli á Leikskólanum Óskalandi þegar faðir eins barnsins á leikskólanum mætti á staðinn með fjölda sjávardýra og sýndi börnunum.


Það var mikið fjör á leikskólanum Óskalandi í morgun þegar Eiríkur Gíslason, faðir hans Arons Helga, og félagi hans hann Kristófer mættu á staðinn með fjölda fiska og sýndu börnunum.

Voru þarna alls konar tegundir bæði sjaldgæfar og algengari en óhætt er að segja að stóreflis bláháfur hafi vakið mesta athygli enda er ekki algengt að þeir veiðist hér við Íslandsstrendur. Þeir Eiríkur og Kristófer stunda sjómennsku á Höfrungi 3 sem gerður er út frá Akranesi en bláháfurinn sjaldgæfi veiddist aftur á móti rétt fyrir utan Þorlákshöfn.

Það var greinilegt á viðbrögðum barnanna að þau kunnu vel að meta heimsóknina enda ekki á hverjum degi sem hér í Hveragerði gefst tækifæri til að skoða sjávardýr með þessum hætti.

Kunnum við þeim félögum bestu þakkir fyrir framtakið.

Það er til fullt af flottum fiskum í sjónum ! Ígulkerin vöktu athygli Fiskasýning Aron Helgi fylgdist grannt með pabba sínum honum Eiríki Gíslasyni.