Góður árangur við útskrift 10. bekkjar

skrifað 10. jún 2014
Fannar Ingi var einnig valinn íþróttamaður Hveragerðis árið 2013.Fannar Ingi var einnig valinn íþróttamaður Hveragerðis árið 2013.

Grunnskólanum í Hveragerði var slitið við hátíðlega athöfn síðastliðinn fimmtudag. Við athöfnina voru nemendur 10. bekkjar formlega útskrifaðir og veittar voru viðurkenningar fyrir góðan árangur.

Stefanía Ólafsdóttir fékk verðlaun fyrir árangur í íslensku, dönsku og samfélagsfræði. Kristín Lára Hauksdóttir fékk verðlaun fyrir iðni ástundun og jákvætt viðhorf. Nína Þöll Birkisdóttir fékk verðlaun fyrir störf að félagsmálum og einnig viðurkenningu fyrir árangur í íþróttum og Sigurbjörg Eva Helgadóttir fékk verðlaun fyrir ensku.

En það var Fannar Ingi Steingrímsson sem útskrifaðist með bestan heildarárangur útskriftarhópsins í ár og hlaut hann einnig verðlaun fyrir árangur í stærðfræði, náttúrufræði og íþróttum.

Er öllu þessu unga fólki og öðrum útskriftarnemum óskað innilega til hamingju með árangurinn og þessi tímamót.

Starfsmenn láta af störfum

Í vor lætur Magnús Gíslason af störfum en hann hefur verið húsvörður við Grunnskólann í 18 ár eða frá árinu 1996. Eru honum þökkuð afar góð störf í þágu barna og ungmenna í Hveragerði.

Einnig lætur Páll Sveinsson, grunnskólakennari, nú af störfum við skólann en hann flyst um set til Árborgar og verður aðstoðarskólastjóri á Ströndinni í haust. Hún Ditta eða Jóhanna Sveinsdóttir lætur af störfum sem skólaliði og starfsmaður frístundaskóla og Kristín Arna Hauksdóttir fer í ársleyfi. Er þessum starfsmönnum öllum óskað velfarnaðar á nýjum slóðum.

Nemendur Grunnskólans í Hveragerði hafa nú yfirgefið skólann enda skólaárinu lokið. Sumarið bíður með ný ævintýri og vonandi gott veður.