"Skjálftinn 2008" vekur athygli

skrifað 07. mar 2016
Emma Hetherington-RoyleEmma Hetherington-Royle

Skjálftahermirinn á Upplýsingamiðstöð Suðurlands vekur gríðarlega lukku en þar geta gestir gegn vægu gjaldi upplifað á eigin skinni hvernig það er þegar jarðskjálfti ríður yfir.


Ferðamenn sækja Hveragerði heim sem aldrei fyrr og fara íbúar og þjónustuaðilar ekki varhluta af auknum straumi þeirra til landsins.

Ýmis konar afþreying og þjónusta er í boði hér í Hveragerði og meðal þess er sýningin Skjálftinn 2008 sem sett var upp í tengslum við Upplýsingamiðstöð Suðurlands.

Gestir Upplýsingamiðstöðvarinnar urðu yfir 60.000 á síðasta ári og fóru flestir um sýninguna. Á henni má sjá myndir og lesa reynslusögur þeirra sem upplifðu skjálftann. Einnig er þar jarðsprunga, gríðarstór, undir gleri sem sýnir vel þá krafta sem búa í iðrum jarðar. Mikla athygli vekur einnig myndband sem sýnir upptökur úr eftirlitsmyndavélum í Vínbúðinni þar sem hinir dýru dropar flæða um verslunina eftir hamfarirnar og einnig hvaða áhrif skjálftinn hafði í Söluskála Skeljungs hér í bæ.

Óneitanlega vekur þó skjálftahermirinn mesta lukku á svæðinu en þar geta gestir gegn vægu gjaldi upplifað á eigin skinni hvernig það er þegar jarðskjálfti ríður yfir.

Hér má sjá umfjöllun Magnúsar Hlyns á Stöð2 um jarðskjálftaherminn.

Hér er einnig skemmtileg umfjöllun um Upplýsingamiðstöðina af erlendri heimasíðu.

Það er ávallt mikið fjör í Upplýsingamiðstöðinni á sumrin. Starfsmenn Upplýsingamiðstöðvar Suðurlands sinna upplýsingagjöf og ráðgjöf til ferðamanna um allt það sem viðkemur Suðurlandi.