Fæðingarorlof og vandi barnafjölskyldna

skrifað 22. mar 2017
Óskaland 1

Bæjarráð skorar á félags- og jafnréttismálaráðherra ... að hlutast til um það að lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 verði breytt með það fyrir augum að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði eða til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.


Á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar þann 16. mars s.l. var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:

Með byggingu nýs leikskóla [í Hveragerði] sem taka mun til starfa í október 2017 mun börnum í bæjarfélaginu bjóðast leikskólavistun frá 1 árs aldri að jafnaði. Þrátt fyrir það er ljóst að þörfin fyrir dagvistunarúrræði á milli loka fæðingarorlofs og upphafs leikskólagöngu er til staðar og því skorar bæjarráð á félags- og jafnréttismálaráðherra ... að hlutast til um það að lögum um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 verði breytt með það fyrir augum að fæðingarorlof verði lengt í 12 mánuði eða til samræmis við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.

Bókun bæjarráðs hefur verið komið á framfæri við ráðherra sem jafnframt var hvattur til að hefja viðræður við Samband íslenskra sveitarfélaga varðandi aðkomu sveitarfélaga að lausn þess verkefnis sem framundan er við að tengja saman fæðingarorlof og dagvistunarúrræði. Vandi barnafjölskyldna vegna dagvistunarúrræða er víða mikill og ber aðilum, ríki og sveitarfélögum, að taka höndum saman með það að markmiði að koma til móts við þá ríku hagsmuni sem þarna eru á ferð.

Einnig hefur samhljóða erindi verið sent stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga með ósk um að stjórnin taki málið til umfjöllunar svo fljótt sem auðið er.

Aldís Hafsteinsdóttir
bæjarstjóri