Eldvarnaátak opnað í Grunnskólanum

skrifað 18. nóv 2015
EldvarnarátakEldvarnarátak

Hið árlega Eldvarnaátak Landssambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna verður opnað í Grunnskólanum í Hveragerði 19. nóvember næstkomandi í samvinnu við Brunavarnir Árnessýslu.

Sérstakur gestur við opnunina verður Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra. Hún tekur þátt í því með starfsmanni Brunavarna Árnessýslu að fræða börnin í 3. bekk um eldvarnir heimilisins.

Í Eldvarnaátakinu heimsækja slökkviliðsmenn um land allt grunnskólana og fræða börn í 3. bekk um eldvarnir. Börnin fá afhent margvíslegt efni um eldvarnir, söguna af Brennu-Vargi og Loga og Glóð ásamt plakati og bókamerki, handbók Eldvarnabandalagsins um eldvarnir heimilisins og fleira. Þeim gefst kostur á að taka þátt í Eldvarnagetrauninni en vegleg verðlaun fyrir þátttöku í henni verða afhent á 112-daginn, 11. febrúar.

Við opnunina í Grunnskólanum í Hveragerði verður meðal annars óvænt uppákoma, starfsfólk fær þjálfun í notkun slökkvitækja og börnum og fullorðnum gefst kostur á að skoða margvíslegan tækjabúnað Brunavarna Árnessýslu.

Þetta er í fyrsta sinn sem Eldvarnaátakið er opnað á starfssvæði Brunavarna Árnessýslu og er það okkur mikil ánægja að taka þátt í því.