Blómstrandi dagar í einmuna blíðu

skrifað 19. ágú 2013
Gríðarlegur mannfjöldi var í miðbænum á laugardeginum. Gríðarlegur mannfjöldi var í miðbænum á laugardeginum.

Þá er Blómstrandi dögum þetta árið lokið og enn og aftur toppar hátíðin sjálfa sig.

Gestafjöldinn eykst ár frá ári og þó að það sé með öllu ómögulegt að leggja mat á það hversu margir heimsóttu Hveragerði þessa helgi þá er ljóst að þeir skiptu þúsundum. Öll bílastæði voru full, lagt var í húsagötum og á öllum auðum svæðum í og við miðbæinn og iðandi mannlífið út um allan bæ bar merki þess að gestir okkar kunnu vel að meta það fjölmarga sem hátíðin hafði uppá að bjóða.

Ísdagur Kjörís vekur landsathygli og er fyrirtækinu til mikils sóma. Mannfjöldinn þar hefur aldrei verið meiri enda eins mikill ís á boðstólum og hver gat í sig troðið.

En eins og alltaf var brekkusöngurinn og flugeldasýningin hápunktur helgarinnar. Blankalogn, heiður himinn og aldrei meiri mannfjöldi gerði að verkum að bæði söngur og drunur frá flugeldum bárust vel í kvöldkyrrðinni. Sjónarspil flugeldanna á kvöldhimninum vakti aðdáun og á Hjálparsveitin heiður skilinn fyrir sýninguna.

Að lokinni þessari fjölmennu og góðu helgi viljum við senda okkar bestu þakkir til þeirra fjölmörgu sem lögðu sitt af mörkum til að Blómstrandi dagar tækjust jafn vel og raun varð.

Gestum okkar þökkum við komuna og hlökkum til að sjá þá alla að ári.

Veðurguðunum sendum við okkar innilegustu og bestu þakkir fyrir draumaveður sem gerði laugardaginn hreint yndislegann.

Sjáumst á Blómstrandi dögum 14. - 17. ágúst 2014.

Aldís Hafsteinsdóttir Bæjarstjóri

P.S. endilega skoðið myndirnar á facebook síðu bæjarins, "Hveragerði".

Yndislegt veðrið gerði daginn ógleymanlegann.Verslunareigendur á Breiðumörkinni tóku vel á móti gestum. Örtröð myndaðist hjá Kjöris þegar þúsundir gesta vildu ná í smakk af furðuístegundunum.