Blóm í bæ hefst í í dag

skrifað 14. jún 2019
Eric Pannenborg

Veðurblíða, blóm, skreytingar og notalegt umhverfi mun taka á móti gestum Hveragerðisbæjar um helgina þar sem blómabærinn bíður til viðburðarins Blóm í bæ !


Hveragerði er nú sem óðast að taka svip gróanda og blóma, en hér verður um helgina viðburðurinn Blóm í bæ.

Efnt verður til fjölbreyttra uppákoma þar sem inntakið eru blóm ræktun, endurvinnsla og vistvænt líf. Nefna má að 30 faglærðir blómaskreytar, Íslendingar, Hollendingar, Belgar, Norðmenn og nemar á blómaskreytingarbraut garðyrkjuskólans að Reykjum í Ölfusi, vinna nú við að skreyta umhverfi aðalgötunnar í Hveragerði og lystigarð bæjarins með blómum frá íslenskrum garðyrkjubændum.

„Við bjóðum fólk í bæinn til að njóta og upplifa,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri Hún leggur áherslu á að enn sem fyrr sé Hveragerði blómabær, þó gróðrastöðvunum þar hafi fækkað. Hvergi á landinu sé meira framleitt af sumarblómum, menntasetur garðyrkjunnar á landinu sé í næsta nágrenni – og yfir sumarið sé bærinn svo sannarlega í miklum blóma. „Veðurspáin fyrir helgina er frábær, nú fara í hönd dagar sem verða væntanlega einhverjir þeir bestu á sumrinu. Við höldum Blóm í bæ annað hvert ár og höfum þó aldrei lagt okkur eftir því að telja fjölda gesta, enda er það aukaatriði. Vitum þó að þeir skipta þúsundum og bros á hverju andlit. „

Hátíðin í Hveragerði verður sett á morgun kl. 17 og þá tekur við fjölbreytt dagskrá. Sýningarsvæði verður við Lystigarðinn, í gróðurhúsinu Eden við Þelamörk verða afurðir græna geirans til sölu, fjölbreytt sýning og sala á pottablómum, markaðir, sýning á páfagaukum og svo mætti áfram telja. Við Breiðumörk verður markaðstorg með nýjum og ferskum afurðum beint frá býlum, vistvænum vörum og svo framvegis. Þá verður sýning á vistvænum farartækjum við Hótel Örk.

Ofangreint er úr frétt Sigurðar Boga sem birtist í Morgunblaðinu í vikunni.

Fyrir hönd Hvergerðinga er ykkur öllum boðið að njóta þess besta sem blómabærinn hefur upp á að bjóða.

Aldís Hafsteinsdóttir
bæjarstjóri