Björgvin Karl þriðji hraustasti í heimi

skrifað 31. júl 2015
Björgvin KarlBjörgvin Karl

Björgvin Karl Guðmundsson kom öllum á óvart og hafnaði í 3. sæti á heimsleikunum í Crossfit sem lauk nýverið. Er þetta einn albesti árangur Evrópubúa í greininni en einungis einu sinni áður hefuríbúi frá álfunni náð á verðlaunapall í karlaflokki.

Árangur Björgvins vakti mikla athygli en hann var næstyngsti keppandinn í karlaflokki.

Í viðtali við Sunnlenska segir Heiðar Ingi, eldri bróðir Björgvins og eigandi Crossfit Hengils í Hveragerði, þar sem Björgvin Karl æfir og þjálfar, að hann eigi þetta svo fyllilega skilið. „Það hefur verið ótrúlegt að fylgjast með honum síðustu þrjú árin. Hann hefur unnið að þessu á hverjum einasta degi. Æfingarnar hafa verið í fyrsta sæti frá því að hann áttaði sig á því að að þetta væri eitthvað sem hann væri góður í. Það er ótrúlegt að sjá hvað hann er alltaf fókuseraður. Að æfa að mestu einn og ná þessum árangri á svona stuttum tíma er að mörgu leyti alveg ótrúlegt en samt svo skiljanlegt fyrir okkur sem þekkjum Björgvin. Hann er bara íþróttamaður fram í fingurgóma, er einhvern veginn einn af þessum sem er góður í öllu, hvort sem það er snjóbretti, fótbolti, lyftingar eða fimleikar - hann skarar allsstaðar framúr og ég er alveg viss um að hann hefði getað orðið atvinnumaður í nánast hvaða grein sem er ef aðstæður hefðu verið ákjósanlegri.“

Hvergerðingar eru stoltir af frábærum árangri Björgvins Karls og óska honum og félögum hans í Crossfit Hengli innilega til hamingju.