Flýtingu framkvæmda fagnað

skrifað 20. nóv 2019
myndina tók Eyþór H. ÓLafsson, forseti bæjarstjórnar en þarna má sjá hluta vegarins sem mun víkja þegar nýr Suðurlandsvegur verður lagður frá Kömbum að Varmá.

Suðurlandsvegur milli Kamba og Selfoss er einn alhættulegasti vegkafli landsins og því eru úrbætur á honum löngu tímabærar. Bæjarráð telur einboðið að ráðist verði í alla framkvæmdina þar með talið frá Kömbum að Vármá eins fljótt og auðið er.


Á fundi bæjarráðs Hveragerðisbæjar þann 7. nóvemer 2019 var lagt fram minnisblað frá bæjarstjóra þar sem rætt var um samgönguáætlun 2020-2024 er þar er gerð tillaga um flýtingu mikilvægra samgöngubóta.

Í fimm ára aðgerðaráætlun sem fylgir samgönguáætlun er gert ráð fyrir að úrbótum á Suðurlandsvegi / hringveginum frá Kömbum að Biskupstungnabraut verði flýtt og þeim verði að fullu lokið á tímabilinu. Þar með taldar eru framkvæmdir við færslu hringvegarins neðan við Hveragerði frá Kömbum að Varmá.

Á fundinum fagnaði bæjarráð þeirri áherslu á bætt umferðaröryggi sem tillagan felur í sér og því frumkvæði sem Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur sýnt í þessu mikilvæga máli.

Óumdeilt er að Suðurlandsvegur milli Kamba og Selfoss er einn alhættulegasti vegkafli landsins og því er þessi framkvæmd löngu tímabær. Bæjarráð taldi því einboðið að ráðist yrði í alla framkvæmdina þar með talið frá Kömbum að Vármá eins fljótt og auðið er.

Afgreiðslu bæjarráðs hefur verið komið á framfæri við ráðherra með þeirri einlægu ósk að landsmenn allir geti sem fyrst ekið um öruggan Suðurlandsveg.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri