Bæjarráð ályktar um kurl á gervigrasvellinum

skrifað 01. okt 2015
Grunnskólinn í Hveragerði. Grunnskólinn í Hveragerði.

Bæjarráð telur brýnt að bregðast við ábendingum um hættu sem stafað getur af kurli í gervigrasvöllum og vísar kostnaði vegna endurnýjunar gervigrassins við grunnskólann til gerðar fjárhagsáætunar fyrir árið 2016.

Erindi frá Heimili og skóla frá 25. september 2015 var tekið til afgreiðslu á fundi bæjarráðs þann 1. október 2015.

Í bréfinu er kynnt ályktun stjórnar Heimilis og skóla um endurnýjun gervigrasvalla vegna eiturefna í dekkjakurli.

Afgreiðsla bæjarráðs var svohljóðandi:
Bæjarráð telur brýnt að brugðist verði við þessum ábendingum. Kostnaður við endurnýjun á gervigrasinu við grunnskólann nemur um 5 m.kr. og vísar bæjarráð ákvörðun um endurnýjun til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2016. Bæjarráð vekur athygli á að í Hamarshöllinni er notuð önnur tegund af kurli sem uppfyllir kröfur um gæði.