Ánægja íbúa eins og best gerist

skrifað 21. feb 2015
Hvergerðingar eru í hópi ánægðustu íbúa landsins þegar spurt er um þjónustu bæjarfélagsins. Hvergerðingar eru í hópi ánægðustu íbúa landsins þegar spurt er um þjónustu bæjarfélagsins.

Íbúar Hveragerðisbæjar eru í hópi ánægðustu íbúa landsins hvað varðar alla þjónustuþætti sem spurt var um í þjónustukönnun Capacent.

Niðurstaða þjónustukönnunar sem Capacent gerði til að kanna ánægju íbúa með þjónustu í 19 stærstu sveitarfélögum landsins var kynnt á fundi bæjarstjórnar þann 21. október – 17. desember 2014.

Eftirfarandi bókun var samþykkt samhljóða á fundinum:

Bæjarstjórn er afar ánægð með niðurstöður könnunarinnar fyrir Hveragerðisbæ sem sýnir að 90% íbúa er ánægður með Hveragerði sem stað til að búa á. Ánægja íbúa í öllum þeim þjónustuþáttum sem spurt var um var ríflega yfir meðaltali í öllum tilfellum og ítrekað lendir Hveragerðisbær í hópi efstu sveitarfélaga í könnuninni .

Það er mikils virði og góð kynning fyrir bæjarfélagið að íbúar séu ánægðir með þá þjónustu sem veitt er. Þegar spurt er um ánægju varðandi þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið lendir Hveragerði í fjórða sæti á eftir Seltjarnarnesi, Garðabæ og Mosfellsbæ og þegar spurt er um líkurnar á að viðkomandi myndi mæla með þjónustu sveitarfélagsins við vini og ættingja lendir Hveragerði enn og aftur á toppnum í góðum hópi með Garðabæ og Seltjarnarnesi.

Það er ljóst að starfsmenn og stjórnendur hjá Hveragerðisbæ eru að vinna afar gott starf og fyrir það þakkar bæjarstjórn af heilum hug. Við getum samt enn gert betur og nú er verkefnið framundan að viðhalda þessum góða árangri þannig að Hveragerðisbær verði áfram í hópi bestu sveitarfélaga landsins hvað búsetuskilyrði varðar.

Á meðfylgjandi myndum má sjá niðurstöður úr nokkrum spurningum.

Hveragerði - ánægjuvogEins og sjá má er ánægja íbúa vel yfir meðaltali annarra sveitarfélaga í öllum þeim atriðum sem spurt var um. Mikil ánægja ríkir með þjónustu við eldri borgara hér í bæ. Athyglisverðar niðurstöður þegar spurt var um hvort viðkomandi myndi mæla með bæjarfélaginu.