Jól í bæ - fréttir

skrifað 30. nóv 2012
Jólasveinar úr Reykjafjalli koma í heimsóknJólasveinar úr Reykjafjalli koma í heimsókn

Jólaljósin eru farin að ljóma um allan bæ og verður haldið í hefðir í Hveragerði um aðventuna. Viðburðadagatalið er komið í hús bæjarbúa og verður margt skemmtilegt á dagskránni eins og undanfarin ár. Kveikt verður á jólatré bæjarins í Smágörðunum við hátíðlega athöfn kl 17, fyrsta sunnudag í aðventu, næstkomandi sunnudag.

Ninna Sif Svavarsdóttir, formaður bæjarráðs flytur ávarp. Jólasveinar munu koma í heimsókn með eitthvað gott í poka og syngjum við saman og skemmtum okkur. Eftir athöfnina verður öllum boðið í kakó í skátaheimilinu, Breiðumörk.
Fyrsti glugginn í jóladagatali Hveragerðis opnast 1. desember við skátaheimilið síðan opnast þeir hver af öðrum víða um bæinn til 24. desember. Öll skólabörn fá afhent jólagluggakort sem er tilvalið að styðjast við þegar fjölskyldan fer saman í heilsubótargöngu eftir hátíðirnar til að taka þátt í jólagluggaleiknum.

Vegleg verðlaun verða dregin út en allir þjónustuaðilar gefa vinninga sem verður safnað saman í veglega körfu sem verður afhent til þeirra heppnu á nýju ári.

Nánari upplýsingar um viðburði og fréttir þeim tengdum má finna hér á heimasíðunni.

Gleðilega aðventu