Hátíðleg gróðursetning í Vigdísarlundi

skrifað 27. jún 2015
byrjar 27. jún 2015
 
Frá gróðursetningu í VigdísarlundiFrá gróðursetningu í Vigdísarlundi

Það var okkur Hvergerðingum sérstakur heiður að okkar fyrrum forseti, frú Vigdís Finnbogadóttir hafi komið og gróðursett fyrstu trén í Vigdísarlundi sem afhjúpaður var í gær, henni til heiðurs.

Haldið var upp á þau tímamót að 35 ár eru síðan Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, og var hún fyrst kvenna í heiminum til að verða þjóðkjörin forseti. Til að fagna þessum tímamótum var ákveðið að gróðursetja þrjú birkitré af stofni Emblu.

Skógræktarfélög um allt land stóðu að verkefninu en einnig komu Samband íslenskra sveitarfélaga að framkvæmdinni og ýmis félagasamtök og fyrirtæki. Hér var það Skógræktarfélag Hveragerðis í samvinnu við bæjarstjórn, sem hafði umsjón með verkefninu.

Skógrækt, landgræðsla og náttúruvernd hafa verið Vigdísi afar hugleikin og hefur hún haldið þeim málefnum á lofti á opinberum vettvangi. Eitt besta dæmið þar að lútandi er að snemma í forsetatíð sinni tók hún upp þann sið að gróðursetja þrjú tré á þeim stöðum sem hún heimsótti – eitt fyrir stúlkur, eitt fyrir drengi og eitt fyrir komandi kynslóðir. Ákveðið var að halda þessum fallega sið og fengin voru þau Sóldís Anna Guðjónsdóttir fyrir hönd stúlkna, Bjartur Geirsson fyrir hönd drengja og fyrir hönd ófæddra barna var barn í móðurkviði Sunnu Siggeirsdóttur og Friðriks Sigurbjörnssonar sem væntanlegt er í heiminn þann 9. ágúst.

Fjölmenni var viðstatt gróðursetninguna og var það sannur heiður að frú Vigdís Finnbogadóttir skuli hafa átt þess kost að vera með okkur þennan dag. Trjálundinn, Vigdísarlund má nú sjá í Smágörðunum en þar stendur nú skilti svo að þeir sem eigi þar leið um muni ávallt vita að til þessa reits var stofnað af virðingu við Vigdísi, okkar ástsæla forseta.

Sóldís og Vigdís gróðursettu fyrsta tréð, fyrir stúlkurVigdís og Bjartur gróðursetja annað tréð, fyrir hönd drengjaÞað þriðja gróðursettu þær Vigdís og Sunna, fyrir komandi kynslóðir