Jól í bæ í Hveragerði

skrifað 22. nóv 2013
Áhaldahússtarfsmenn eru byrjaðir að skreyta bæinn
Áhaldahússtarfsmenn eru byrjaðir að skreyta bæinn

Jólahátíðin „Jól í bæ“ er samstarfsverkefni allra sem í bænum búa og leggjum við metnað í að gera bæinn okkar sem hátíðlegastan með jólaljósum og –skreytingum.

Undirbúningur fyrir jólahátíðina er hafinn og eru jólaljósin farin að ljóma um allan bæ á staurum og í trjám. Hið árlega viðburðadagatal bæjarins kemur í hús bæjarbúa eftir helgi en þar eru upplýsingar um alla þá viðburði sem eru í boði í kringum jólahátíðina en einnig má sjá viðburðina á heimasíðu bæjarins http://www.hveragerdi.is/ .

Jólasýning verður opnuð fimmtudaginn 28. nóvember í Listasafni Árnesinga en þar má sjá jólasveinakvæði Jóhannesar úr Kötlum og teikningar Tryggva Magnússonar. Jóladagskrá, fyrir börn á öllum aldri, verður í safninu þegar Stekkjarstaur kemur til byggða, sá fyrsti af þeim bræðrum. Einnig koma bræður hans við, þeir Giljagaur, Stúfur og Þvörusleikir og verður þá barnadagskrá og listasmiðja fyrir fjölskylduna í Listasafninu. Nánari uppslýsingar má finna í viðburðadagatalinu.

Fyrsta sunnudag í aðventu verður kveikt á bæjarjólatrénu í Smágörðunum. Skátafélagið Strókur býður upp á heitt kakó og munu jólasveinar úr Reykjafjalli fá bæjarleyfi hjá Grýlu til að skemmta ungum sem öldnum. Um kvöldið verður aðventukvöld í Hveragerðiskirkju.

3. desember verður bókmenntadagskrá með tónlistar- og myndlistarívafi í Listasafninu í samvinnu við Bókasafnið. Guðmundur Andri Thorsson, Óskar Árni Óskarsson, Sigrún Pálsdóttir, Vigdís Grímsdóttir og Sjón lesa úr nýjum bókum. Ljúfir Jazztónar hljóma á milli lestra.

Jólagluggadagatal bæjarins er orðin hefð og verður nú í fimmta sinn. Fyrirtæki og stofnanir skreyta sérstaka jólaglugga og verður opnaður einn gluggi á dag í desember fram að jólum. Fjölmargir leggja leið sína um bæinn til að skoða jólagluggana og taka þátt í jólaorðaleik. Nú í ár má finna 20 orð í gluggunum sem mynda þekkta jólavísu sé þeim raðað í rétta orðaröð. Það var Guðrún Tryggvadóttir hjá Náttúran.is sem er hugmyndasmiður jólabókanna og hafði hún veg og vanda að hönnun táknanna og textanum sem fylgja hverju tákni.

Eigið ánægjulegar stundir við undirbúning jólanna

Jóhanna M. Hjartardóttir, menningar- og frístundafulltrúi

Kirkjan er tilvalinn staður til að heimsækja um jólin og upplifa þann frið og kærleik sem ætíð geislar frá guðshúsum.Grýla, Leppalúði og jólasveinarnir 13 standa í ströngu þessa daganaJólagluggadagatal bæjarins verður nú í fimmta sinnMargir búa til piparkökuhús fyrir jólinJól í bæ í HveragerðiLeikskólabörn fylgjast spennt með opnun jólagluggaeldri borgarar ganga um bæinn og skoða jólagluggana í sínum vikulegu göngtúrum