Skemmtum okkur í heimabyggð í sumar

Fjölbreytt námskeið í sumar fyrir yngstu kynslóðina

skrifað 21. maí 2012
leikjanámskeiðleikjanámskeið

Hveragerðisbær kynnir afþreyingu fyrir börn og unglinga sumarið 2012. Boðið verður upp á fjölbreytt námskeið og starfskynningu. Fylgist vel með heimasíðu bæjarins http://www.hveragerdi.is/Mannlif/Frettir/21-05-12_14-32/?events=1 en þar má finna upplýsingar um alla afþreyingu í bænum okkar í sumar.

Mikil fjölbreyttni verður í námskeiðum fyrir börn og unglinga í sumar. Það eru Íþróttafélagið Hamar, Golfklúbbur Hveragerðis, Hestamannafélagið Ljúfur og fleiri menningartengdir aðilar sem hafa haft veg og vanda af þeirri afþreyingu sem er í boði fyrir unga fólkið. Nú í sumar verður íþrótta- og ævintýranámskeið, söng-, sjálfstyrkinga- og leiklistarnámskeið, hjólreiða- og útivistarnámskeið og mörg fleiri námskeið sem kynna þær íþróttagreinar sem stundaðar eru hjá íþróttafélaginu Hamri. Listasafn Árnesinga verður með ljósmynda- og myndlistarnámskeið og mun Bókasafnið vera með sumarlestur og fleiri viðburði fyrir börnin. Ég hvet alla áhugasama að kynna sér vel hvað er í boði og vonandi finna allir eitthvað við sitt hæfi.

Samvera fjölskyldunnar er mikilvæg og er upplagt að nýta sér þær góðu gönguleiðir sem eru í og við bæinn. Góð sundferð er hressandi fyrir líkama og sál og um leið ódýr valkostur fyrir fjölskylduna. Frítt er í Sundlaugina Laugaskarði fyrir börn og unglinga í Hveragerði til 18 ára aldurs og fyrir börn úr dreifbýli Ölfuss sem eru í grunnskólanum í Hveragerði.

Jóhanna M. Hjartardóttir menningar- og frístundafulltrúi