Myndin af Þingvöllum í Listasafni Árnesinga

skrifað 13. maí 2011

Sunnudaginn 15. maí kl. 15.00 mun frú Vigdís Finnbogadóttir opna sýninguna Myndin af Þingvöllum í Listasafni Árnesinga í Hveragerði. Enginn staður á Íslandi hefur verið jafn vinsæl fyrirmynd íslenskra listamanna og Þingvellir. Sýningin tekur á þeim fjölbreyttu birtingarmyndum sem Þingvellir hafa notið í íslenskri myndlist sem og hönnun, kortagerð, ljósmyndun, ferðabókum og fjölmiðlun samtímans. Elstu verk sýningarinnar eru eftir erlenda listamenn og ferðalanga 18. og 19. aldar, auk nokkurra af elstu ljósmyndum Sigfúsar Eymundssonar er hann tók á Þingvöllum í kringum Þjóðhátíðina árið 1874. Sýningin varpar ljósi á þróun Þingvallamyndarinnar allt frá forvígismönnum íslenskar myndlistar í upphafi 20. aldar, í gegnum myndafjöld sjálfstæðis-baráttunnar og til öndvegisverka Kjarvals, ásamt því að víkja að brott-hvarfi hennar á tímum eftirstríðsáranna og upprisu í meðförum yngri kynslóða. Sýningarstjóri er myndlistarmaðurinn Einar Garibaldi Eiríksson, en hann hefur sett saman sýningu úr verkum yfir 50 listamanna, sem fengin eru að láni bæði frá einstaklingum og helstu listasöfnum þjóðarinnar. Þessi veigamikla sýning er sumarsýning Listasafns Árnesinga og mun standa opin til 21. ágúst næstkomandi. Listasafn Árnesinga býður alla velkomna á opnun sýningarinnar þar sem einn þekktasti staður sýslunnar er til skoðunar. Listasafn Árnesinga er opið daglega á milli kl. 12.00 og 18.00.