Sýningarspjall í Listasafninu

skrifað 06. maí 2011
Sýningarspjall kl. 16
Síðasta sýningardaginn 8. maí
Rithöfundarnir Hermann Stefánsson og Huldar Breiðfjörð ræða við gesti um samstarf þeirra og pólsku ljósmyndaranna Michał Łuczak og Rafał Milach.
"Það er svo margt sem ég veit ekki, ætti að vita eða veit nokkurn veginn. Þótt ég giski, slumpi og jafnvel ljúgi mig í gegn um svörin
situr alltaf ein spurning eftir í höfðinu þegar ég legg það á koddann á kvöldin: Hvað veit ég?" ritar Huldar í kjölfar ferðalags um Ísland með Rafal frá Póllandi.
" Þó verður að segjast eins og er að ljósmyndir eru ekki veruleikinn. Þær eru túlkun og útgáfa, eitt andartak sem stýrt er af sýn ljósmyndarans" ritar Hermann Stefánsson eftir að hafa ferðast með Michał Łuczak. Á ferðalaginu skrásettu ljósmyndarnir og rithöfundarnir hver á sinn hátt ýmsar birtingamyndir Íslands og Íslendinga. Afraksturinn má sjá og heyra á sýningunni IS(not) í Listasafni Árnesinga. Þar er einnig afrakstur þriggja annarra pólskra ljósmyndara sem ferðuðust um Ísland á síðasta ári, hver um sig með íslenskum rithöfundi.
Markmið ferðalagsins var að að takast á við hinar ýmsar klisjur um eylandið norður í hafi og fanga innsta eðli Íslands, hið mannlega eðli. Ljósmyndararnir komu utan frá en kynntust landinu innan frá, frá sjónarhóli íslensku rithöfundanna og annarra sem þeir hittu á ferð sinni. Um leið og þeir horfðust í augu við klisjurnar leituðu þeir eftir persónulegri reynslu. En þeim mun betur sem þeir kynntust Íslandi, þeim mun betur áttuðu þeir sig á því hversu lítið þeir raunverulega vissu.
Í safninu er einnig sýningin Úr kössum og koffortum þar sem líta má myndir frá Héraðsskjalasafninu sem eiga það sammerkt að vera teknar í Hveragerði og nágrenni á tímabilinu 1930 til 1980.
Meiri upplýsingar má finna á heimasíðunni www.listasafnarnesinga.is
Aðgangur er ókeypis.