Sýningarspjall í Listasafni Árnesinga

skrifað 20. apr 2011
Föstudaginn langa 22. apríl
Sýningarspjall kl. 16
Rithöfundurinn Sigurbjörg Þrastardóttir ræðir við gesti um samstarf hennar og pólska ljósmyndarans Agnieszku Rayss.

"En stundum gerist hið óvænta - og þá þarf maður að éta ofan í sig alla veraldarinnar fordóma og fyrirfram ákveðnar hugmyndir - í hrautstlegu roki á maður leið fram hjá fossi sem streymir ekki niður heldur upp!" ritar Sigurbjörg í kjölfar ferðalags um Ísland með Agnieszku frá Póllandi. Á ferðalaginu skrásettu þær hvor á sinn hátt ýmsar birtingamyndir vatnsins. Afraksturinn má sjá og heyra á sýningunni IS(not) í Listasafni Árnesinga. Þar er einnig afrakstur fjögurra annarra pólskra ljósmyndara sem ferðuðust um Ísland á síðasta ári, hver um sig með íslenskum rithöfundi.

Markmið ferðalagsins var að að takast á við hinar ýmsar klisjur um eylandið norður í hafi og fanga innsta eðli Íslands, hið mannlega eðli. Ljósmyndararnir komu utan frá en kynntust landinu innan frá, frá sjónarhóli íslensku rithöfundanna og annarra sem þeir hittu á ferð sinni. Um leið og þeir horfðust í augu við klisjurnar leituðu þeir eftir persónulegri reynslu. En þeim mun betur sem þeir kynntust Íslandi, þeim mun betur áttuðu þeir sig á því hversu lítið þeir raunverulega vissu. Þeir komu til að leita svara en fóru með margar spurningar. Spurningar um eðli eyjunnar og um okkur sjálf. Og Íslendingarnir kynntust landinu á annan hátt.

Í safninu er einnig sýningin Úr kössum og koffortum þar sem líta má myndir frá Héraðsskjalasafninu sem eiga það sammerkt að vera teknar í Hveragerði og nágrenni á tímabilinu 1930 til 1980.

Meiri upplýsingar má finna á heimasíðunni www.listasafnarnesinga.is

Safnið er opið um páskana eins og venjulega fimmtudaga - sunnudaga kl. 12 - 18. Það er því lokað mánudaginn annan í páskum. Í safninu er notaleg kaffistofa, leikkró og bókakró þar sem hægt er að skoða ýmis rit um myndlist.

Aðgangur er ókeypis.