Bókasafnsdagurinn í Bókasafninu í Hveragerði

skrifað 13. apr 2011
Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða, í samstarfi við bókasöfn á Íslandi heldur

Bókasafnsdag, fimmtudaginn 14. apríl.
Tilgangur dagsins er að vekja athygli á mikilvægi bókasafna fyrir þjóðfélagið. Bókasöfn gegna mikilvægu hlutverki sem miðstöð fræðslu og þekkingar; fyrir framboð á tón- og myndlistarefni, yndislestri og afþreyingu, fyrir aðstoð við upplýsingaöflun og gagnaleitir. Bókasöfn eru auk þess samkomuhús, menningarmiðstöðvar og góður staður til að vera á. Bókasöfn eru heilsulind hugans.

Bókasöfnin munu taka á móti viðskiptavinum sínum eins og vanalega þennan dag. Mörg þeirra verða með dagskrá eða tilbreytingu í starfsemi.

Á Bókasafninu í Hveragerði verður ýmislegt gert í tilefni dagsins. Við kynnum lista yfir 100 bestu íslensku bækurnar að mati bókasafnsstarfsmanna landsins; bjóðum upp á bókmenntagetraunir fyrir börn og fullorðna, brandarakeppni um bækur, bókasöfn og bókaverði og svo rúlla öskudagsmyndirnar 2011 á skjánum. Við sýnum gestum hvernig við plöstum bækur og hvernig á að skrá sig á "mínar síður" og leita í okkar safni á Gegnir.is. Einnig bjóðum við upp á sögustundir og bókakynningar, þar sem bókasafnsstarfsfólkið kynnir uppáhaldsbækurnar sínar. Það verður nóg að gera allan daginn. Tímasetningar má sjá á safninu, á heimasíðunni http://sites.google.com/site/bokasafnidihveragerdi og á Facebook. Við bjóðum alla velkomna til okkar eins og endranær og allir gestir dagsins fá bókamerki að gjöf.
Starfsfólk Bókasafnsins í Hveragerði